Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar leggur til að félaginu Bernódus ehf verði úthlutað lóðin Arnarbakka 5 á Bíldudal til byggingar á einbýlishúsi.
Bernódus ehf sótti um í sumar um 30 lóðir undir íbúðarhús á Bíldudal. Bæjarráð ákvað að horfa til lands innan við byggðina sem er í landi Litlu Eyrar, en skortur er á íbúðarlóðum á Bíldudal.
Á fundi bæjarráðs í gær var kynnt svar eigenda Litlu Eyrar og er það neikvætt. Landeigendur eru sammála um að láta ekki landspildur til bygginga á íbúðum eða öðrum mannvirkjum í landi jarðarinnar.
Bæjarráð Vesturbyggðar harmar afstöðu landeigenda og fól bæjarstjóra að svara bréfritara og jafnframt var byggingafulltrúa falið að kanna aðra kosti í landi sveitarfélagsins í nágrenni Bíldudals varðandi mögulegar byggingalóðir. Sveitarfélagið á samkvæmt heimildum Bæjarins besta land um 500 metra fyrir innan land Litlu Eyrar norðan til við þjóðveginn.