Kómedíuleikhúsið hefur sótt um að fá til afnota gömlu bæjarskrifstofurnar á Þingeyri undir starfsemi leiklistarmiðstöðvar.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók jákvætt í erindið og fól bæjarstjóra að kanna ástand húsnæðis og að gera samkomulag við bréfritara um tímabundin afnot af húsnæðinu.
Í erindi Kómedíuleikhússins til ísafjarðarbæjar segir að leihúsið sé á götunni en hyggist snúa vörn i sókn með Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins og „þar getur Ísafjarðarbær átt stóran þátt með því að útvega húsnæði undir starfsemina.“
Í lýsingu á leiklistarmiðstöðinni segir:
„Hér er um að ræða brautryðjenda verkefni í leiklistarmálum á svæðinu. Kómedíuleikhúsið ætlar að koma sér upp sérstakri leiklistarmiðstöð undir starfsemi sína á Þingeyri. Um er að ræða vinnuaðstöðu til æfinga á leikverkum okkar, skrifstofuaðstöðu Kómedíuleikhússins, aðstaða til hýsa leikmyndir okkar og búningasafn. Einnig mun aðstaðan nýtast sem æfingaaðstaða fyrir Leikdeild Höfrungs og síðast en ekki síst aðstaða til að geta boðið uppá leiklistarnámskeið. Fyrstu námskeiðin verða strax í nóvember þar sem heimamönnum gefst tækifæri til að gera eigin grímur fyrir þrettánda hátíðina á Þingeyri sem er alveg stórmerkileg og ætti í raun að vera hin árlega Þrettándagleði Ísafjarðarbæjar. Leiklistarmiðstöðin verður því sannkölluð leiksamfélagsmiðstöð sem getur átt þátt í að gera búestu á Þingeyri enn eftirsóttari en hún er.“
Óskað er eftir húsnæði í eigu bæjarins þar sem áður voru skrifstofur Þingeyrarhrepps og segir um það: „Það húsnæði hefur staðið autt og ónotað í fjölda ári og því upplagt að koma lífi í það með þessu spennandi leiklistarverkefni. Væri nú ekki meira vit í því að fylla húsin í þorpinu lífi frekar en hafa þau einsog draugahús. Rétt er að geta þess sérstaklega að Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins fékk í vor styrk frá verkefninu Öll vötn til Dýrafjarðar en vitanlega er sá styrkur skilyrtur við að við fáum húsnæðið.“
Markmið Kómedíuleikhússins er að vera leiðandi í leiklist á Vestfjörðum og leiklistarmiðstöðin muni gegna stóru hlutverki til þess að svo megi verða. „Þangað mun streyma atvinnulistamenn til að vinna með okkur að uppsetningum Kómedíuleikhússins. Einnig mun hingað streyma listafólk allsstaðar af landinu til að sækja þar námskeið og annað leiklistartengt s.s. fyrirlestra.“