Ellefu ökumenn voru kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í síðustu viku. Sá sem hraðast ók var stöðvaður á 148 hraða þar sem hámarkshraði er 90 km.
Höfð voru afskipti af einum hjólreiðamanni vegna þess hann hafði barn án öryggishjálms í reiðhjólavagni. Vakin er athygli á því að hjólreiðafólk og farþegar reiðhjóla undir 15 ára ber skylda, lögum samkvæmt, að nota reiðhjólahjálm.
Á þriðjudag fundaði lögreglan með heimafólki í Árneshreppi, í flugstöðinni við Gjögurflugvöll. Tilefnið er að hefja vinnu við undirbúning æfingar við flugslysi sem fara á fram 19. október nk. Ætlunin er að aðgerðastjórn almannavarna verði virkjuð á Ísafirði sem bakland við vettvangsstjórn á Gjögurflugvelli.
Tilkynnt var um átök sem urðu milli áhafnarmeðlima á skútu sem var við höfn á Ísafirði á sl. miðvikudag. Til orðaskipta kom á milli tveggja aðila sem leiddi til handalögmála. Læknir var kallaður til að skoða annan aðilann. Áverkar reyndust minni háttar. Málið er til rannsóknar.
Á fimmtudagsmorgun var tilkynnt um olíuleka á Djúpvegi um Miðdal í Strandabyggð. Talið er að drifskaft á flutningabíl hafi losnað með þeim afleiðingum að gat kom á olíutank. Menn frá Slökkviliði Strandabyggðar komu til að hreinsa olíuna. Loka þurfti veginum nokkrum sinnum fyrir umferð sem var þó hleypt í gegn reglulega. Hreinsun gekk vel.
Tilkynnt var um umferðaróhapp á Ísafirði á laugardag þar sem bifreið var ekið utan í aðra en stungið af án þess að láta vita. Að sögn tilkynnanda var grárri Kia Sorento bifreið ekið utan í bifreið hans. Lögreglan biðlar til þeirra sem hafa frekari upplýsingar um að hafa samband, annað hvort í síma 444 0400 eða í gegnum netfangið vestfirdir@logreglan.is.
Þá varð annað umferðaróhapp sunnan við Hólmavík á sunnudag. Ökumaður var að aka norður Djúpveg er hann missti stjórn á bifreiðinni, en talið er að hjólbarði hafi sprungið og það truflað aksturinn með þessum afleiðingum. Engin slys urðu á fólki en nokkurt tjón varð á bifreiðinni.
Eins og greint hefur verið frá varð alvarlegt umferðarslys í Hnífsdal á föstudagskvöld er ökumaður missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún lenti á ljósastaur og valt í framhaldi a.m.k. eina veltu. Auk ökumanns voru tveir farþegar í bifreiðinni. Allir voru þeir fluttir á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði og var einn þeirra metinn alvarlega slasaður og fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann fór í aðgerð á höfði. Hann er enn á sjúkrahúsi í Reykjavík en þó úr lífshættu. Hinir tveir voru útskrifaðir af sjúkrahúsinu á Ísafirði morguninn eftir slysið.
Rannsókn á tildrögum slyssins er í fullum gangi af hálfu lögreglunnar á Vestfjörðum og Rannsóknarnefndar samgönguslysa og því ekki hægt að gefa upp frekari upplýsingar að svo stöddu. Ljóst er að sá sem minnst slasaðist var með öryggisbelti spennt þegar slysið varð. Svo mun ekki hafa verið með hina tvo.