Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða á laugardaginn

Frá Hólmavík. mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða verður haldinn a laugardaginn, þann 21. september 2019 í Hnyðju á Hólmavík. Fundurinn hefst kl 14.

Opið verður fyrir nýskráningar á fundinum. Hver sá sem sem búsettur er á Vestfjörðum og  skráir sig í félagið er gildur félagsmaður á aðalfundinum.

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða voru endurvakin á svokölluðum endurstofnfundi í apríl 2019 á Ísafirði, en starfsemi þeirra  hafði legið í dvala frá 2008. Eftir þann fund eru skráðir félagsmenn 36. Var þá ákveðið að halda aðalfund fljótlega.

Á stjórnarfundum og endurstofnfundinum á Ísafirði var nútíma fjarskiptatækni nýtt og fjarstaddir hafa getað tekið þátt í fundunum. Í Hnyðju á Hólmavík er góður búnaður fyrir fjarfundi.

Saga samtakanna nær aftur til 1971. Þá voru stofnuð á fundi í Flókalundi samtök undir nafninu vestfirsk náttúruverndarsamtök. Þau létu að sér kveða, gáfu m.a. út tímaritið Kaldbak og áttu stóran þátt í friðlýsingu Hornstranda. Fimmtán árum síðar féll starfsemin samtakanna niður.

Fimmta apríl 2008 voru samtökin endurvakin á hátíðlegum fundi í Hömrum á Ísafirði, sem var þó kallaður stofnfundur. Var nafninu breytt í Náttúruverndarsamtök Vestfjarða  en samtökin störfuðu áfram á fyrri kennitölu. Það voru bollaleggingar um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum sem urðu til þess að samtökin voru endurvakin.

Samtök Vestfirðinga og skynsamleg nýting náttúruauðlinda

Í tilkynningu um stofnfundinn 2008 sagði um helstu verkefni að þau væru verndun náttúru, umhverfisfræðsla, friðlýsing merkra og fagurra staða, verndun minja og skynsamleg nýting náttúruauðlinda. Þá sagði einnig: Fundarboðendur hvetja Vestfirðinga til að mæta á fundinn og láta sig varða þetta mikilvæga málefni.

Hvalárvirkjun og laxeldi

Starfsemin varð ekki langlíf og hefur verið ládeiða í starfinu þar til í vor 2019. Fram hefur komið að deilt er um tvö stórmál á Vestfjörðum, annars vegar Hvalárvirkjun og hins vegar laxeldi í sjó. Það kom strax fram á endurstofnfundinum á Ísafirði og ljóst er að  tekist er á um það innan samtakanna hvort leggjast eigi harkalega gegn þessum málum rétt eins og Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands gera meðal annars með kærum og málshöfðun fyrir dómstólum eða hvort fylgja eigi náttúruverndarstefnunni sem mörkuð var á Ísafirði 2008 um að taka mið af þörf Vestfirðinga og nýta skynsamlega náttúruauðlindir fjórðungsins.

Það verður væntanlega helsta viðfangsefni fundarins að marka stefnuna í þessum tveimur stóru málum.

-k

DEILA