Þann 10. ágúst kl. 9-11.40 stendur Fornminjafélag Súgandafjarðar fyrir Vestfirska fornminjadeginum í mötuneyti Íslandssögu. Sjónum verður beint að þeim fjölmörgu áhugaverðu málum sem varða sögu Vestfirðinga.
Á dagskránni verða eftirfarandi erindi:
Sigurður Pétursson sagnfræðingur mun segja frá verstöðum og sjóþorpum fyrr á öldum og hvers vegna ekki varð til þéttbýli á Íslandi, líkt og í öðrum löndum, á 15.-19. öld.
Dr. Matthias Egeler mun segja frá keltneskum áhrifum á miðöldum. Hann mun sérstaklega einblína á örnefni og sagnahefðina þar sem áhrifin eru hvað mest og koma inn á sterk tengsl örnefna við þjóðsögur sem safnað var á Íslandi á 19. öld.
Jón Jónsson sagnfræðingur mun halda erindi um aftökustaði. Jón hefur skoðað marga slíka staði og sögur um þá. Margir þekktir aftökustaðir eru á Vestfjörðum og mikilvægt að saga þeirra gleymist ekki.
Valdimar Halldórsson staðarhaldari á Hrafnseyri mun segja frá Hrafni Sveinbjarnarsyni höfðingja sem setti svip sinn á sögu Vestfjarða.
Helga Guðný Kristjánsdóttir og Björn Birkisson hafa verið að vinna að því að staðsetja þekkt örnefni á kort í samvinnu við landeigendur og áhugafólk á Vestfjörðum. Um er að ræða mikilvægt framlag til sögu þjóðarinnar. Þau munu segja frá aðferðafræðinni og sýna myndir.
Eyþór Eðvarðsson mun halda erindi um landnámsskálabygginguna í botni Súgandafjarðar. Skálinn er tilgátuhús byggt á fornleifauppgrefti af svokölluðum Grélutóftum á Hrafnseyri í Arnarfirði. Sagt verður frá Grélutóftunum og hvað þar kom í ljós og fjallað um landnámsskálann.
Með fyrirvara um breytingar.
Ókeypis inn og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Enginn aðgangseyrir.