Sveitarfélög á Vestfjörðum verða aðeins þrjú

Húsnæði Súðavíkurhrepps.

Sveitarfélögum á Vestfjörðum fækkar úr níu í þrjú, ef hugmyndir um að setja föst viðmið um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum upp í 1000 árið 2026 ganga eftir. Sveitarfélögum á landinu öllu mun fækka úr 72 í um 30 verði þessar hugmyndir að veruleika.

Tillaga um að innleiða lágmarksíbúafjölda fyrir sveitarfélög koma fram í tillögum sem Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birti fyrir skömmu á samráðsgátt stjórnvalda. Þær eru hluti af þingsályktun um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033, sem lögð verður fyrir Alþingi í október í haust. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar. Frestur til að skila umsögn er til 9. september 2019.

Samkvæmt tillögunni er stefnt að innleiðingu lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, þannig að frá árinu 2022 verði hann 250 og frá árinu 2026 verði lágmarksíbúafjöldinn hækkaður í 1000. Þetta þýðir að þrjú sveitarfélög á Vestfjörðum verða að sameinast öðrum fyrir árið 2022, miðað við núverandi íbúafjölda. Það eru Árneshreppur með 40 íbúa, Kaldrananeshreppur með 103 íbúa og Súðavíkurhreppur með 204 íbúa. Reykhólahreppur og Tálknafjarðarhreppur rétt sleppa yfir 250 íbúa mörkin, þar sem íbúar eru 258 í þessum sveitarfélögum nú.

Ef lágmarkið verður hækkað í 1000 árið 2026 verða öll sveitarfélög á Vestfjörðum nema Ísafjarðarbær að sameinast öðrum. Það á við um Bolungarvíkurkaupstað (953), Vesturbyggð (998) og Strandabyggð (449) auk þeirra sem áður voru talin. Gangi þetta eftir munu sveitarfélög á Vestfjörðum verða 3-4 í stað 9 eftir sjö ár.

Samstaða var um það í starfshópi ráðherra að koma á lágmarksíbúafjölda. Markmiðið er að efla sveitarstjórnarstigið og gera sveitarfélögin að enn sjálfbærari þjónustu- og rekstrareiningum. Mismunandi skoðanir voru um það hver lágmarksfjöldinn ætti að vera og fannst sumum að hún þyrfti að vera hærri en 1000. Samkvæmt tillögunni mun reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verða breytt til að tryggja aukinn stuðning við sameiningar sveitarfélaga.

Hugmyndir um að þvinga sveitarfélög til sameiningar hafa áður komið fram og ætíð verið mjög umdeildar. Svo mun vera áfram. Bæjarráð Bolungarvíkurkaupstaðar hefur þegar mótmælt þessum hugmyndum og trúlega munu fleiri sveitarfélög taka í sama streng.

 

DEILA