Súgfirðingar efndu til hátíðar í gær og héldu upp á þau tímamót að 70 ár eru síðan leikvöllurinn var tekinn í noktun. Mikil og góð þátttaka var í veðurblíðunni og mátti sjá þar bæði unga og aldna Súgfirðinga samgleðjast og rifja upp þá daga þeir þeir styttu sér stundir á leikvellinum.
Þóra Þórðardóttir, fyrrv kennari flutti ágrip af aðdraganda og sögu leikvallarins. Það var Aðalsteinn Hallsson, skólastjóri sem var aðalhvatamaðurinn að gerð leikvallarins. Hann flutti til Suðureyrar 1947 og hóf þá þegar að undirbúa leikvallagerðina. Aðalsteinn smíðaði líkan af leikvelli og þar mátti sjá völlinn með öllum áhöldum. Ekki lét hann þar við sitja heldur smiðaði líka áhöld. Fékk hann hreppsnefndina með sér í málið og ekki leið á löngu þar til leikvöllurinn var fullgerður og búinn þeim tækjum sem Aðalsteinn hafði hugsað sér. Fram kom hjá Þóru að leikvallargerð Aðalsteins hafi síðar verið tekin upp á ýmsum stöðum.
Guðni Einarsson, framkvæmdastjóri Klofnings ehf lýsti því yfir fyrir hönd þriggja fyrirtækja á staðnum, að þau myndu láta lagfæra og mála steingarðinn sem umlyktur leikvöllinn.