Gert er ráð fyrir að 136 skemmtiferðaskip komi til Ísafjarðar í sumar og með þeim um 90.000 farþegar. Af þessum skipum eiga 29 enn eftir að koma. Að sögn Guðmundar Kristjánssonar hafnarstjóra kemur það einstaka sinnum fyrir að skip hætta við að koma vegna veðurs og eru það þá aðallega skip sem leggjast við akkeri þar sem veður hefur mikil áhrif á léttabátana sem notaðir eru til að flytja fólk í land. Flest hafa skipin verið fjögur sama daginn og hefur þá farþegafjöldinn farið í um 5000 manns. Samkvæmt þeim bókunum sem nú liggja fyrir má gera ráð fyrir um 10% aukningu í komu skemmtiferðaskipa og að þau verði um 150 á næsta ári og að farþegafjöldinn fari í 100 þúsund.