Vesturbyggð hefur samið um matseld fyrir mötuneyti Patreksskóla og leikskólann Araklett næstu þrjú ár. Samningsfjárhæð er 107.264.295 kr. Árskostnaður verður því um 35 milljónir króna, en Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að raunkostnaður hafi verið um 43 milljónir króna á ári.
Samkvæmt þessu er samningsfjárhæðin um 20% lægri en raunkostnaðurinn.
Verkið var boðið út og barst eitt tilboð upp á 117.986.565 kr. með vsk. Í viðræðum sem fram fóru lækkaði tilboðsgjafi verðið. Ekki er upplýst hver tilboðsgjafi er. Kostnaðaráætlun var hins vegar mun lægri eða rúmlega 29 milljónir króna á ári að því er fram kemur í svari bæjarstjórans. Endanleg samningsfjárhæð er um 20% hærri en kostnaðaráætlunin.