Ómar Smári Kristinsson bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2019

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Ómar Smári Kristinsson við útnefninguna. Mynd: Ásgeir Helgi Þrastarson

Myndlistarmaðurinn Ómar Smári Kristinsson er bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2019 og var útnefningin tilkynnt á einleikjahátíðinni Act Alone á Suðureyri laugardaginn 10. ágúst.

Í rökstuðningi Atvinnu- og menningarmálanefndar segir m.a. :

„Ómar Smári Kristinsson er bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2019. Hann er myndlistamaður, undanfarin ár hefur list hans aðallega komið okkur fyrir sjónir í teikningum og bókaútgáfu. Ómar Smári stundaði nám í Myndlista- og handíðaskólanum og myndlistarnám í Hannover í Þýskalandi.

Árið 2012 teiknaði hann bæjarmynd af Ísafirði, í samstarfi við Eyþór Jóvinsson, þar sem hann tók bæði myndir úr lofti og nærmynd af hverju húsi. Hann setti saman kortið úr 24 teikningum, sem pössuðu síðan saman í eina heild. Kortið varð fljótlega úrelt eftir útgáfu en árlega uppfærir hann kortið m.t.t. nýs litar á húsi, viðbygginga eða annarra breytinga. Ætla má að kortið verði að nokkurs konar sagnfræðilegri myndasögu í gegnum tíðina. Kortunum hefur jafnframt fjölgað og Suðureyri, Þingeyri og Flateyri hafa jafnframt verið teiknuð upp ásamt fjölda annarra þéttbýlisstaða víðar um landið.

Ómar Smári kom að heimildarmynd um Bolungarvík, Bolungarvík á 20 mínútum, í samstarfi við Kvikmyndafélagið Glámu og Bolungarvíkurkaupstað. Eftir því sem best er vitað er þar eina teiknimyndin í heiminum sem sýnir þróun eins þéttbýlisstaðar.

Hann hefur haldið ýmsar sýningar, tók m.a. þátt í tveimur jólasýningum í Safnahúsinu þar sem hann málaði jólasveina og aðrar kynjaverur jólanna á veggi Listasafns Ísafjarðar. Enn fremur er Ómar Smári að vinna að útgáfu teiknimyndasögu sem unnin er upp úr Gísla sögu Súrssonar ásamt Elfari Loga [Hannessyni] og var sýning á þeirri vinnu á vormánuðum í Listasafni Ísafjarðar.

Það sem einkennir list Ómars Smára er nákvæmni og hversu auðvelt er að átta sig á landslagi og afstöðu hluta í verkum hans.  Hann er teiknari með sitt eigið handbragð, sinn eigin stíl. Hann er með húmor og er jafnan glaðbeittur.“

DEILA