Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að Ófeigsfjarðarvegur hafi verið á skrá sem þjóðvegur að Hvalá í Ófeigsfirðir frá árinu 2004 þegar hann var skráður í flokk landsvega skv. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007, en rudd slóð mun hafa legið þangað a.m.k. frá áttunda áratug síðustu aldar. Vegurinn hefur verið opinn almennri umferð og fær vel búnum bifreiðum. Hefur vegurinn notið takmarkaðs viðhalds af hálfu Vegagerðarinnar eins og gildir um landsvegi almennt en takmarkaðar fjárveitingar eru til endurbóta og viðhalds vega sem þessara.
Veghald framselt til Vesturverks
Vegalög heimila Vegagerðinni að framselja veghald þjóðvega til einstaklinga eða fyrirtækja og skal þá gerður um það sérstakur samningur, sjá nánar 13. gr. laganna. Á árinu 2015 fór Vesturverk formlega fram á það við Vegagerðina að hún fyrir sitt leyti sem veghaldari þjóðvega heimilaði endurbætur á Ófeigsfjarðarvegi í tengslum við fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir. Vegagerðin féllst á það fyrir sitt leyti og var fyrr í sumar gerður samningur við Vesturverk sem kveður á um heimild til þess að taka að sér veghald vegarins og ráðast í endurbætur á honum í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir.
Tilskilin leyfi skipulagsyfirvalda liggja fyrir
Fordæmi eru fyrir því að í tengslum við undirbúning virkjanaframkvæmda séu vegir lagfærðir og haldið við af framkvæmdaraðila en afhentir Vegagerðinni að framkvæmdum loknum. Algengt er að styrkja þurfi vegakerfi sem fyrir er til þess að það þoli þungaflutninga sem slíkum framkvæmdum fylgja. Gert er ráð fyrir slíkum vegabótum í mati á umhverfisáhrifum vegna virkjunarinnar og ekki liggur annað fyrir en að tilskilin leyfi skipulagsyfirvalda liggi fyrir vegna þeirra.
Þjóðvegir á forræði Vegagerðarinnar og umsjá hennar
Fram hefur komið að Vegagerðina skorti eignarheimild að Ófeigsfjarðarvegi. Í því sambandi skal tekið fram að Vegagerðin hefur ekki þinglýsta eignarheimild að Ófeigsfjarðarvegi frekar en fyrir meginhluta þjóðvegakerfisins. Þinglýsing eignarheimilda að vegum hefur ekki verið almenna reglan fyrr en eftir að núgildandi vegalög tóku gildi á árinu 2008 en þau mæla fyrir um að Vegagerðin skuli þinglýsa eignarheimildum að vegsvæðum. Meginhluti þjóðvegakerfisins er án þinglýstrar eignarheimildar og á það almennt við um landsvegi eins og Ófeigsfjarðarveg. Breytir það engu um að slíkir vegir teljast til þjóðvega samkvæmt 8. gr. vegalaga, eru sem slíkir á forræði og í umsjá Vegagerðarinnar og heimild til framsals veghalds slíkra vega því fyrir hendi óháð því hvort sýna megi fram á eignarheimild að veginum.