Í norska blaðinu Fiskeribladet, sem gefið er út í Björgvin er í síðustu viku grein eftir Erik Slynge , sem var prófessor við NMBU háskólann og stjórnandi rannsókna við norsku Hafrannsóknastofnunina. Greinin fjallar um alinn lax í kvíum og meinta erfðafræðilega hættu af honum. NMBU háskólinn starfar á sviði umhverfis- og loftslagsmála, fæðuframboð og sjálfbæra nýtingu náttúrurauðlinda. Slynge er nú kominn á eftirlaun.
Erik Slynge byrjar á því að spyrja af hverju það er talin svo mikil hætta fyrir villta laxastofna af kvíaöldum frjóum lax. Hann telur greinilega að strokulax úr kvíum sé alls ekkert hættulegur laxastofnum í einstökum ám sem fyrir eru. Rökstuðningur hans er eitthvað á þessa leið:
Strokulaxar sem ganga upp í ár eru mjög fáir. Raunar færri en villtir farlaxar (feilvandring) , sem eru laxar sem leita upp í aðra á en þeir eru upprunnir í. Farlaxar eru náttúrulegt fyrirbrigði og segir Slynge 3 – 7% af löxum sem koma aftur í ferskvatn af hafi fara í aðra á en þeir komu úr. Farlaxar eru ekki taldir hættulegir stofnum sem fyrir eru og Slynge spyr: af hverju eru strokulaxar taldir hættulegir eins og best sést af því að ef storkulax æxlasat villtum lax er það refsivert og sektir liggja við. Hann bendir á að farlaxar vinni gegn innræktun og auki fjölbreytni í genamenginu og að það er almennt talið jákvætt.
Kvíaalinn lax er ræktaður af löxum sem teknir voru um 1970 úr um 40 norskum laxveiðiám. þeim var blandað saman til að fá stofn sem gefur af sér góðan fisk og er hagkvæmur í ræktun. Hver kynslóð í laxi er um 4 ár svo notað er í Noregi og líklega líka hérlendis stofn sem var eins og villtur lax fyrir 14-15 kynslóðum síðan.
Íslendingar 40 kynslóðum frá Norðmönnum
Síðan fer Erik Slynge yfir í mannheima og bendir á að svipað gildir þar um genasamsetningu, innræktun og fleira og í dýraríkinu. Íslendingar fluttu frá Noregi fyrir um 40 kynslóðum síðan, en engu að síður eru þeir eins og Norðmenn í útliti og atferli og tungumálið er ekki ólíkara en svo að með góðum vilja megi skilja það. Engin hætta er talin á ferðum þótt Norðmenn og Íslendingar dragi sig saman.
Hvers vegna er kvíalax hættulegur?
Grein sína lýkur Erik Slinge á þeim orðum að spyrja hvers vegna alinn lax með sín gen er talinn hafa óæskileg og hættuleg gen. Hver er hin faglega ástæða þess, segir Slynge, að lax sem hefur í nokkrar kynslóðir verið alinn annars staðar en villti laxinn er talinn hættulegur en Íslendingur sem hefur verið fjarri mun lengur er ekki hættulegur norskum genum.
Hér spyr maður sem hefur starfað á vettvangi sem veitir honum bestu þekkingu á viðfangsefninu og hann hefur ekki komið auga á hættuna af blöndun fárra eldislaxa við villtan lax. Íslenskir vísindamenn í Hafrannsóknarstofnun mættu taka fyrir spurninguna og svara henni, helst áður en þeir loka Ísafjarðardjúpi fyrir blómstrandi atvinnugrein, sjókvíaeldi, sem mun gerbreyta til hins betra stöðu Vestfjarða, en ekki síður þjóðarhag landsmanna, þar sem vantar fé til flestra þarfra mála.
-k