Mögulegar smávirkjanir á Vestfjörðum

Út eru komnar sjö skýrslur um smávirkjanir í vatnsafli þar sem Orkustofnun hefur látið vinna úr gögnum um rennsli, smárra vatnsfalla víða um land.
Veðurstofan og verkfræðistofan Vatnaskil reiknuðu út langæislínur að beiðni Orkustofnunar og voru útreikningarnir nýttir til að meta mögulegt afl og orkugetu hinna ýmsu virkjunarkosta.
Gögnin voru borin saman við sambærilegt mat Mannvits og Eflu á þeim virkjunarkostum sem fyrirtækin höfðu einnig metið. Ljóst er af samanburði á mati mismunandi aðila að nauðsynlegt er að framkvæmdar séu mælingar á rennsli til að tryggja að hönnun á stærð virkjunar verði sem hagkvæmust.
Tilgangurinn með með þessum skýrslum sem eru hluti af smávirkjanaverkefni Orkustofnunar, er að efla raforkuframleiðslu út um land, til að auka orkuöryggi, ekki síst vegna þess að rammaáætlun hefur verið strand síðan 2016, og langan tíma tekur almennt að byggja upp orkumannvirki.
Ein af þessum sjö skýrslum fjallar um smávirkjanir á Vestfjörðum. Þar er fjallað um tvær hugsanlegar smávirkjanir annars vegar virkjun í Hattardal í Álftafirði og hins vegar um virkjun í Þverá í Bjarnarfirði. Þessar virkjanir eru báðar fremur smáar í sniðum, gert er ráð fyrir að virkjunin í Hattardal getir verið 100 kW og í Þverá er um að ræða mun minni virkjun.

DEILA