Mikil uppbygging í Raggagarði í sumar

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Raggagarði í sumar. Þrjú ný leiktæki hafa verið sett upp í sumar og haldið var áfram frá fyrra ári með rekaviðarskóg í Boggutúni. Raggagarður fékk 11 staura og tvær rótarhnyðjur frá Pétri í Ófeigsfirði og bændurnir í Litlu Ávík og Krossnesi hafa einnig útvegað tré. Skógurinn er tilkomumikill og þegar horft er á rótarhnyðjurnar má auðveldlega sjá ýmsar kynjamyndir og eins og svo margt annað í Raggagarði er þessi litli rekaviðarskógur einsdæmi á Íslandi. Þá hefur verið byggt yfir þrjú hvalbein sem Minjastofnun veitti leyfi til að tekin væri úr sjó við Langeyri, en þar reistu Norðmenn hvalveiðistöð, sína fyrstu á Íslandi á síðari hluta 19 aldar.
Í ár fékkst góður styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og eru því góðar líkur á að uppbyggingu garðsins ljúki á næsta ári. Þá verða liðin 15 ár síðan Vilborg Arnarsdóttir með góðri aðstoð eiginmannsins Halldórs Þórissonar og einvalaliðs í Súðavík hóf þetta merkileg uppbyggingarstarf og segist hún vonast til þess að það takist fyrir 6 ágúst 2020 en þá verður haldið upp á 15 ára afmæli garðsins. Hógvær að vanda þakkar Bogga, eins og hún er alltaf kölluð, öllum þeim sem hafa lagt þessu lið og þannig haldið á lofti minningunni um son hennar Ragnar Vestfjörð (1983-2001) sem hún hefur tileinkað þetta verkefni.
Þann 8 júní í sumar var settur upp teljari til að fylgjast með gestafjöldanum, en aðsókn í garðinn hefur aukist ár frá ári, var um 2000 fyrsta árið, en verður á milli 12 og 15 þúsund á þessu ári.

DEILA