Hreppstjórar á nýjum grunni gætu gert mikið gagn fyrir landið

Á myndinni að ofan er Sigurður Þ. Gunnarsson, síðasti hreppstjóri Þingeyrarhepps, sem er eiginlega ennþá hreppstjóri af því honum var aldrei sagt upp. Og starfslokasmning fékk hann engan! Hann þurfti sjaldan að setja upp embættistáknið. Ljósm. H. S.

Sú var tíðin að hreppstjórar voru í hverjum hreppi á Íslandi. Var svo um aldir.  Þeir heyra nú sögunni til. Nýlega komst sú hugmynd á kreik hjá nokkrum spekingum hér fyrir vestan að rétt væri að endurvekja hreppstjórana. En til hvers? Jú, aðallega til að aðstoða og leiðbeina erlendum ferðamönnum. Ekki virðist nú veita af. Hvað þeir mega gera og hvað ekki. Verkefnin óteljandi.

Ferðamannahreppstjórar af báðum kynjum með lögregluvald

Vestfirsku spekingarnir segja:

Nýju hreppstjórarnir verði nokkurs konar svæðisumsjónarmenn á landsbyggðinni. Með lögregluvald samkvæmt erindisbréfi. Gjörkunnugir og hæfir menn af báðum kynjum yrðu ráðnir í starfið eftir auglýsingu þar um. Lögregla, landverðir og hreppstjórar myndu vinna náið saman.

Vel má hugsa sér að ferðamannahreppstjórarnir yrðu 100 talsins. En auðvitað væri rétt að þeir yrðu ekki nema 20 til að byrja með til að sjá hvort eitthvert vit sé í þessari hugmynd. Við Íslendingar erum nú ekki vanir að reisa okkur hurðarás um öxl!

Þar sem fáir ferðamenn eru á vetrum, gætu þessir kappar sinnt ýmsum störfum öðrum fyrir samfélagið. Þar kemur margt til greina svo sem eins og að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Tala við þá sem hýrast einir. Og kannski spjalla við unglingana um eiturlyfjahelvítið. Lögreglustjórar eða sýslumenn yrðu yfirmenn þeirra. Þeir væru ekki með byssur við lendar eins og sheriffarnir í villta vestrinu. Nei, en lögreglustjörnu hefðu þeir í barmi og kannski hreppstjórahúfu. Hefðu heimild til að sekta þá á staðnum sem ekki virða lög og reglur.

Hreppstjórar gætu orðið mjög gagnlegir og vinalegir tengiliðir við ferðafólkið. Væru til staðar  og hefðu kontról hver á sínu svæði og myndu spara lögreglunni mörg sporin. Hún hefur í nógu öðru að snúast. Ferðamennirnir myndu finna að við berum umhyggju fyrir þeim og óskum gestum okkur alls hins besta! Allra hluta vegna þurfum við reglur sem allir fari eftir í umgengni við Náttúrulistasalinn Ísland, sem á fáa sína líka. Stjórnleysið gengur ekki. Enginn mun skilja það betur en ferðalangurinn.

Hvað kostar í bíó?

Áætlaður kostnaður á ári við 100 hreppstjóraembætti gæti verið 1 milljarður, sem er náttúrlega ágizkun. Það yrðu þá 200 milljónir fyrir þá 20. Og það sem meira er: Erlendu ferðamennirnir greiði sjálfir þann kostnað, sbr. áður birtar tillögur okkar og fleiri um Íslandsgjald. Það ættu allir erlendir ferðamenn að greiða sem koma til að skoða Náttúrulistasalinn Ísland. Slíkt gjald myndi sennilega auka áhugann á Íslandi. Við spyrjum: Er ekki selt inn á bíósýningar, svo lítið dæmi sé nefnt? Hvað kostar inn?

Áætlaður kostnaður við hreppstjóraembættin

Reiknað er með að kostnaður við hvert embætti verði um 10 milljónir kr. á ári. Gömul embætti reist á nýjum grunni. Í þau verði ráðnir samkv. umsóknum, sem áður segir, menn af báðum kynjum sem gjörþekkja allar aðstæður á heimaslóðum.

1. Laun hreppstjóra          6,000,000,-
2. Launatengd gjöld         1,500,000,-
3. Bílaleigubíll (merktur) 1,500,000,-
4. Annar kostnaður          1,000,000,- = 10,000,000,-

Þetta eru hugmyndir. En eru ekki orðin til alls fyrst?

Hallgrímur Sveinsson, Guðmundur Ingvarsson, Bjarni G. Einarsson

 

DEILA