Fræðslumiðstöð Vestfjarða 20 ára

Starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á Ísafirði

Fullt var út úr dyrum í afmæli Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða í gær. Ávörp og kveðjur voru flutt og er ljóst að Fræðslumiðstöðin hefur á þessum 20 árum unnið gott starf á sínu starfssvæði en miðstöðin er með þrjár starfsstöðvar, á Hólmavík, Ísafirði og Patreksfirði og bíður bæði upp á staðnám og fjarnám. Óhætt að segja að starfsemin hafi þróast, vaxið og dafnað þessa tvo áratugi.
Í ávarpi forstöðumannsins Sædísar Maríu Jónatansdóttur kom fram Fræðslumiðstöð Vestfjarða er starfrækt á grundvelli laga um framhaldsfræðslu. Eitt helsta verkefni miðstöðvarinnar er að skipuleggja nám, þ.e. starfstengt nám, almennt nám og tómstundanám. Mikil áhersla er á vottað nám fyrir fólk með litla skólagöngu og er það niðurgreitt af Fræðslusjóði og einnig niðurgreiða starfmenntasjóðir námskeið fyrir félagsmenn sína. Lögð er áhersla á samvinnu við atvinnulífið við val á starfstengdu námi og að hægt sé að leggja stund á nám samhliða vinnu. Þá heldur Fræðslumiðstöðin íslenskunámskeið fyrir útlendinga sem eru lykill að virkni og eflingu mannauðs í lífi og starfi í fjölmenningarlegu samfélagi okkar.
Markmið Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða er að leggja grunn að símenntun með það að leiðarljósi að skapa einstaklingum tækifæri til náms alla ævi. Að baki hugmyndinni um nám alla ævi býr sú hugsun að ef einstaklingur á að vera fær um að lifa og starfa í nútíma lýðræðisþjóðfélagi, sem tekur örum breytingum, þarf hann að hafa tækifæri til að mennta sig alla ævi. Ein af grunnstoðum í starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða er það samstarf sem hún á við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og verkalýðshreyfinguna. Gott samstarf við sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu skiptir Fræðslumiðstöðina líka afar miklu máli

DEILA