Flateyri: tíuþúsundasti viðskiptavinurinn í bókabúðinni

Gamla Bókabúðin á Flateyri tók í gær á móti sínum tíuþúsundasta viðskiptavini í sumar og hafa aldrei áður, í 105 ára sögu verslunarinnar jafn margir ferðamenn heimsótt verslunina, eins og í sumar.

 

Það voru þau Anton og Tiffany, bandarískir ferðamenn sem voru viðskiptavinir númer 10,000 í sumar og voru þau leyst út með blómvendi og bókagjöfum. Sumarið í Bókabúðinni hefur verið eitt það besta frá upphafi og er verslunin orðin að einu helsta aðdráttarafli ferðamanna á Flateyri.

 

Verslunin var stofnuð árið 1914 og hefur því verið í rekstri í 105 ár. Verslunin er enn rekin í sama húsnæði og af sömu fjölskyldu, en verslunarstjórinn í dag, Eyþór Jóvinsson er langafabarn Jóns, sem stofnaði verslunina ásamt bræðrum sínum upphaflega.

 

Gamla Bókabúðin, eða Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson, eins og hún heitir formlega var upphaflega nýlenduvöruverslun sem þróaðist smátt og smátt í bókaverslun. Í dag er þar rekin fornbókasala ásamt því að íbúð kaupmannshjónanna er til sýnis, en hún hefur staðið nánast óbreytt frá árinu 1950 og er því líklegast eina heimilið á Íslandi sem hefur varðveist í upprunalegri mynd frá því á fyrrihluta seinustu aldar.

 

Vinsældir verslunarinnar hafa aukist ár frá ári og voru árlegir gestir hennar innan við tvöþúsund þegar núverandi verslunarstjóri tók við rekstrinum fyrir sex árum. Áherslubreyting í rekstrinum og öflug markaðssetning hefur nú skilað rúmlega 10,000 gestum í bókabúðina í ár. Gestir verslunarinnar skiptast í þrjá jafna hópa, Íslendinga, erlenda ferðamenn og farþega af skemmtiferðaskipum sem koma til Ísafjaraðar og fara í skipulagðar ferðir í Bókabúðina.

 

Á næsta ári verða liðin 100 ár frá því að verslunin fékk bóksöluleyfi og stendur til að fagna því veglega með margvíslegum uppákomum á komandi ári og því ljóst að framtíðin er björt hjá þessari, elstu upprunalegu verslun Íslands.

 

íbúð Kaupmannshjónanna
DEILA