Bolungavíkurkaupstaður lét bora tilraunholu í gömlu vatnsveitunni í Hlíðardal í vor. Strax var komið á góða vatnsæð á 37 metra dýpi. Bæjarráð Bolungavíkur ræddi næstu skref á fundi sínum í síðustu viku. Reynslan er sú að sögn Jóns Páls Hreinssonar bæjarstjóra að vatnsrennslið er stöðugt og mun gefa nægilegt vatn fyrir bæjarfélagið ef fram fer sem horfir.
Ákveðið var að gera verðkönnun á vinnsluholu. Jón Páll segir að kostnaður gæti orðið töluverður en engu að síður væri mikill ávinningur fyrir bæjarfélagið að fá gott vatn. Þá gæti verið til athugunar að láta bora holu sem væri mun dýpri en að vatnsæðinni og nota holuna sem neðanjarðarvatnstank.