Blábankinn á Þingeyri: Alþjóðlegur sumarskóli í september

Sumarskóli um matvælaframleiðslu og loftlagsmál verður haldinn á Þingeyri fyrstu vikuna í september. Það eru samtökin Future Food Institute í samvinnu FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, sem standa fyrir sumarskólum um matvælaframleiðslu og loftslagsmál. Þrír slíkir skólar fara fram í ár. Var sá fysti haldinn í New York með þemað borgir, og annar haldinn fyrir skemmstu í Tókíó um sveitir. Vestfirðir á Íslandi hafa verið valdir sem staðsetning fyrir þriðja skólann, sem mun fjalla um hafið.
Skólinn fer fram í Blábankanum á Þingeyri frá 1. – 7. september næstkomandi. Er von á frumkvöðlum og áhrifafólki á sviði matvælaframleiðslu og loftslagsmála alls staðar að úr heiminum. Sameiginlegt markmið skólanna er að finna áþreifanlegar aðferðir og nýjungar til að vinna gegn loftslagsbreytingum. Íslendingum gefst kostur á að sækja um þáttöku í skólanum. Þá verður áhugasömum boðið að skrá sig til leiks í opinni vinnustofu þann 5. september, sem miðar að því að vinna að raunhæfum lausnum í loftslagsmálum.
„Markmið þessa samstarfs er að stuðla að veldisvexti jákvæðra breytinga. Þessu náum við fram með því að líta á nýsköpun í matvælahagkerfinu sem lykillausn á brýnustu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir,“ segir José Graziano da Silva, framkvæmdarstjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO).
Það eru nokkur pláss fyrir nemendur sem búa á Íslandi að taka þátt í skólanum sér að kostnaðarlausu, utan kostnað við gistingu og ferðalög. Auk þess verður vinnustofa þann 5. september, þar sem ætlunin er að nemendur í samstarfi við Vestfirðinga og velunnara vinni að raunhæfum verkefnum, það er öllum frjálst að skrá sig til þáttöku á meðan húsrúm Blábankans leyfir. Til þess að sækja um að komast að sem nemandi þarf að senda umsókn á póstfangið ingibs@gmail.com. Sjá frekari upplýsingar á vef Blábankans.

DEILA