Bjarki fjallar um Bárðarsögu

Sunnudaginn 25. ágúst kl. 16 mun Bjarki Bjarnason rithöfundur fjalla um Bárðarsögu Snæfellsáss á Gíslastöðum í Haukadal í Dýrafirði.
Hlustunartollur er aðeins 1.500.- kr – kaffi innifalið

Bjarki gjörþekkir söguna og hefur annast útgáfu hennar með orðaskýringum og verkefnum; auk þess að greina frá söguþræði og umhverfi verksins mun hann fjalla um dýpri merkingu og boðskap þess.
Bárðarsaga Snæfellsáss er ein af Íslendingasögunum, hún gerist á 9. og 10. öld, var rituð af óþekktum höfundi líklega á 14. öld en fyrst prentuð á Hólum í Hjaltadal árið 1756. Sagan greinir meðal annars frá Bárði Dumbssyni sem nemur land á Snæfellsnesi en vinnur óhæfuverk, yfirgefur mannlegt samfélag, breytist í heitguð og fær viðurnefnið Snæfellsás. Örlög Helgu Bárðardóttur eru svipuð að því leyti að hún segir einnig skilið við samfélag manna, eftir að hafa orðið fyrir djúpri ástarsorg.
Mikið af þjóðsagnaefni er í sögunni, þráður hennar er losaralegur á köflum en sögulokin binda hana saman. Þá mætir Gestur sonur Bárðar örlögum sínum í Noregi með eftirminnilegum hætti og spurning kviknar í huga lesandans:
Sigrar sá ætíð sem hefur síðasta orðið?

DEILA