Á vordögum var samþykkt heilbrigðisstefna til ársins 2030 sem heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir lagði fram út frá samþykktri þingsályktunartillögu Framsóknarflokksins frá 2017 um nauðsyn þess að leggja fram slíka stefnu. Hafði ég framsögu með málinu í velferðarnefnd þingsins.
Leiðarljós heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er að almenningur á Íslandi búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu. Stefnan er yfirgripsmikil og er henni ætlað að marka framtíðarsýn fyrir heilbrigðiskerfið í heild sinni. Gert er ráð fyrir að henni verði hrint í framkvæmd með fimm ára aðgerðaráætlun sem heilbrigðisráðherra leggur árlega fram. Nú liggur fyrir slík aðgerðaráætlun og nær hún til ársins 2023.
Í aðgerðaráætlun ráðherra má finna sérstök áhersluatriði sem setja á í forgang á næstu tveimur árum. Þar má nefna heilbrigðisþjónustu við aldraða, skipulag sjúkraflutninga í landinu, innleiðingu á nýju fjármögnunarkerfi fyrir heilbrigðisþjónustuna, mönnun heilbrigðisþjónustunnar og innleiðingu gæðaáætlunar.
Öflugar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni
Í heilbrigðisstefnunni er ráðgert að heilbrigðisstofnanir um land allt geri árlega eigin starfsáætlun sem tekur mið af heilbrigðisstefnu og aðgerðaráætlun tengt henni. Forstjórar heilbrigðisstofnana landsins eru umdæmisstjórar heilbrigðismála innan síns umdæmis og hafa með sér reglulegt samráð um heilbrigðisþjónustu undir forystu heilbrigðisráðuneytisins. Þetta kallar á öfluga leiðtoga á hverju svæði til að kortleggja þjónustuþörf og skipuleggja starfsemi sinnar stofnunnar út frá því.
Heilbrigðisþjónustan er skilgreind sem fyrsta stigs (heilsugæsla), annars stigs (sérfræðiþjónusta utan háskólasjúkrahúss) og þriðja stigs þjónusta (þjónusta veitt á háskólasjúkrahúsi eða í nánu samstarfi við það). Mikilvægt er að fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónusta sé aðgengileg sem flestum nálægt heimabyggð sinni. Íbúar í dreifðum byggðum þurfa að hafa góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu sem borin er uppi af heilbrigðisstofnunum um allt land.
Sjúkraflutningar
Til þess þarf líka að efla t.a.m. utanspítalaþjónustu (sjúkraflutninga). Á vorþingi var samþykkt þingsályktun velferðanefndar Alþingis um mótun stefnu um bráðaþjónustu utan spítala. Öflug bráðaþjónusta utan spítala er nauðsynlegur hlekkur í öflugu heilbrigðiskerfi. Þetta er baráttumál, sérstaklega í dreifðum byggðum þar sem erfitt hefur verið að halda úti skurðstofum, fæðingahjálp og viðverðu sérfræðinga.
Fjarheilbrigðisþjónusta
Í aðgerðaráætlun má finna áherslur um aðgengi að heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga á landsbyggðinni verði bætt með fjarheilbrigðisþjónustu. Fjarheilbrigðisþjónustu fylgja bæði tækifæri og áskoranir. Mótun slíkrar þjónustu þarf að ígrunda vel. Tæknin er til staðar og ætti að geta nýst til að auka gæði og spara bæði tíma og fjármagn. Með fjarheilbrigðisþjónustu er hægt að nýta betur þann mannauð sem hver stofnun býr yfir. Þjónustan verður aðgengileg óháð búsetu og fagfólk hefur aðgang að meiri stuðningi í sínu heimahéraði.
Með aðgerðaráætlun heilbrigðisstefnu er komið verkfæri til að gera gott heilbrigðiskerfi betra og efla enn frekar þjónustuna í heimbyggð.
Halla Signý Kristjánsdóttir
- þingmaður NV.