Á síðu Hafrannsóknastofnunar (Hafró, hafogvatn.is) 19. júlí sl. mátti lesa áskorun til veiðifélaga og stangveiðimanna. Líklegt má telja að áskorunin hafi verið einskonar tilraun til ráðgjafar um stjórnun laxveiða í straumvötnum. Ekki er þó hægt að sjá út frá þessari áskorun að hér sé um sömu rannsóknastofnun að ræða og þá er veitir mjög ítarlega ráðgjöf hvað varðar fiskveiðar og sem hefur sl. misseri haldið uppbyggingu fiskeldis í gíslingu með skýrslugerð um hættur sem fylgt geta eldi í sjó. Ennfremur er þessi áskorun áhugaverð í ljósi þess að í 5. grein laga um hlutverk sömu stofnunar segir orðrétt „ …Að treysta undirstöður vísindalegrar ráðgjafar um nýtingu og ræktun nytjastofna sjávar, áa og vatna“. Ekkert er þó sagt í lögum um að eitt skuli vega meira en annað og því má ljóst vera að nefnd áskorun er ansi marklítil og vart til þess fallin að kallast á við fyrrnefnda grein, en áskorunin hljóðar svo:
„Þar sem ljóst er að laxagöngur eru litlar í sumar hvetur Hafrannsóknastofnun veiðifélög og stangveiðimenn til gæta hófsemi í veiði og að sleppa sem flestum löxum aftur eftir veiði. Þetta er mikilvægt til að hrygningarstofninn í haust verði eins sterkur og unnt er“.
Það sem vekur upp spurningar er einmitt hvernig það megi vera að stofnunin beiti ekki fyrir sig betri vísindum, veiti ekki betri ráðgjöf í stað þess að byðja veiðimenn að sleppa fleiri fiskum svo að þeir geti þá vonandi veitt þá aftur sér til gamans. Svona eins og þegar komi að laxveiðum þá sé sú iðja yfir alla skynsemi hafin.
Það er ljóst að laxveiðar (hér átt við um alla laxfiska) eru gríðarlega vinsælt sport og skila af sér miklum tekjum til þeirra sem selja veiðileyfi. Svo mikill áhugi er að virðist vera til staðar að erlendir auðmenn kaupa upp jarðir sem liggja að laxveiðiám í stórum stíl. Til að reyna að viðhalda nægum fiski í ánum hafa veiðifélög staðið að umfangsmikilli ræktun og sleppingum á seiðum í ár – en um það skal ekki fjallað hér.
Þetta þýðir að sem flestum löxum af þeim sem veiðast, gjarnan eftir mikla baráttu veiðimanns við bráðina, sem svo á endanum er tekin úr sínu náttúrulega umhverfi til myndatöku, er svo sleppt. Allt í nafni dýraverndar, svo að laxinn fái getið af sér afkvæmi.
Skoðum aðferðina „veiða-sleppa“ aðeins betur. Markmiðið er semsagt að veiðimaðurinn fái notið baráttunnar við laxinn – snúa á hann með haganlega hnýttri flugu og etja svo við hann kappi þar til laxinn annaðhvort sleppur eða veiðimaðurinn nær honum á land, oft eftir langa og stranga baráttu líkt og margur veiðimaðurinn hefur lýst. Laxinn á endanum nær dauða en lífi af stressi og þreytu – en veiðimaðurinn brosir framan í myndavélina. Hér er ekkert verið að velta fyrir sér hver séu raunveruleg áhrif slíkrar meðferðar– hvorki á fiskinn sem einstakling né stofninn í ánni. Allt þetta, þrátt fyrir að fjölmargar vísindagreinar hafi fjallað nákvæmlega um það – hvaða áhrif slík meðferð hefur á laxinn – sem því miður endar oft með að laxinn drepst. Laxness hefði sennilega kallað þetta hundraðogellefstu meðferð á dýrum. En þegar kemur að umræðu um dýravelferð – þá má ekki ræða þetta. Í besta falli gleymist það.
En skiptir þetta máli? Hafró hvetur jú til slíkrar meðferðar á löxum – og Hafró er jú sú stofnun sem leiðbeina á. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að veiða-sleppa aðferðin veldur oft á tíðum varanlegum áhrifum. Laxinn verður stressaður og sem svo getur leitt af sér breytingar á atferli fiskanna, ekki síst hrygningaratferli. En skiptir það máli fyrir veiðimennina sjálfa ef fiskurinn lifir og nær að hrygna – fjölga sér? Svarið er einfallt. JÁ! Rannsóknir sýna nefninlega að laxinn, sem er óvitlaus, lærir að öngull veiðimannsins er slæmur. Og – ekki nóg með það, heldur sýna ennfremur rannsóknir að þessi lærdómur flyst yfir til annarra laxa sem þá sýna aukna „veiðifælni“. Niðurstaðan verður því sú að laxarir læra hver af öðrum og niðurstaðan – jú færri fiskar veiðast – .
Niðurstaðan er því sú að áskorun Hafró er ekki til þess fallin að hjálpa veiðimönnum til að vernda laxinn – auka veiðar – heldur miðar að því að fleiri laxar skaðist við veiðar, fleiri laxar drepist og þeir sem lifi af verði «veiðifælnari» en ella. Ráðgjöfin snýst sem sagt upp í öndverðu sína.
Réttilega er hinsvegar á það bent hjá Hafró að heimtur úr sjó hafa minnkað víða í Evrópu og ómögulegt er að vita hvað veldur. Ekki hefur tekist að finna einstakar ástæður enda er náttúran flókin og fjölmargar aðstæður geta legið að baki. Þetta er mikilvægt að undirstrika – ekki síst í þeirri herferð sem nú á sér stað gegn fiskeldi í sjó. Það er nefnilega svo að ekki hefur tekist að sýna fram á að fiskeldi sé sökudólgurinn í þessu sambandi.
Sem dæmi um þetta má nefna hinn sögufræga lax, Vosso laxinn, í Noregi. Stórlaxar sem voru heimsfrægir en dóu nánast út sökum gríðarlegrar ofveiði í net í sjó. Eftir mikið uppbyggingarstarf sem kostað hefur yfir 200 miljónir norskra króna er niðurstaðan sú að verkefninu hefur verið hætt. Það voru einfaldlega engar heimtur úr hafi þrátt fyrir að tekist hafi að byggja upp góðan hrygningastofn. Þetta er gríðarlegt áfall. En undirstrikar það sem vísindamennirnir segja, náttúran er flókin og lífið í hafinu er lykilatriðið í lífsferli laxins. Hinsvegar er ljóst að slíkt uppbyggingarstarf er gríðarlega mikilvægt – ekki bara út frá vísindalegu sjónarmiði heldur einnig menningarlegu. Kannski mun Vosso laxinn braggast og stofninn stækka. En þangað til er hann verndaður. Bannað að veiða. Bannað að veiða og sleppa.
Og snúum aftur sjónum okkar að Íslandi. Hví grípa menn þá ekki til sömu ráða á Íslandi líkt og Norðmenn hafa gert? Banna veiðar. Tímabundið eða alveg í einstökum ám? Hefja alvöru verndun, uppbyggingu sem mun tryggja íslenska laxinum bjarta framtíð.
En það er langt í land – ekki síst þegar litið er til umræðunnar um villta laxinn – ástand áa, veiðitölur og stofnstærðir, en þá eru ávalt teknar með ár sem að mestu eða alveg byggja á sleppingum. Ár sem hafa engan eiginlegan stofn sem hrygnir í ánni. Þessar ár og ástand þeirra fer því algjörlega eftir dugnaði veiðirétthafa, sem með sleppingum stjórna því hvort fiskur er í ánni eður ei. Ágæt dæmi um slíkar ár eru Rangárnar og Breiðdalsá – ár sem eru ekkert annað en íslenskar hafbeitarár. Það er því algjör firra að telja þessar ár með og slíkar ár eiga ekki heima í umræðu um villtan íslenskan lax. Það þætti sjálfsagt saga til næsta bæjar ef áhugamenn um gullfiskaræktun krefðust þess að fiskarnir þeirra yrðu reiknaðir sem hluti af stofnstærð gullfiska í heiminum.
Í stað þess að koma með «áskorun» sem í reynd vinnur gegn hagsmunum laxveiðimanna, svo ekki sé nú talað um laxins sjálfs og menningu þjóðar, ætti Hafró að taka virkan og ábyrgan þátt í stjórnun laxveiða í ám. Stjórna uppbyggingu íslenska laxastofnsins með því að beita sömu aðferðum og gert er með fiskistofna hafsins – takmarka eða banna veiðar.
Með þessu móti væri Hafró að sinna hlutverki sínu.
Höfundar:
Dr. Þorleifur Ágústsson fiskalífeðlisfræðingur
Dr. Þorleifur Eiríksson dýrafræðingur