Snerpa á Ísafirði stendur í stórræðum og er að ljósleiðaravæða Dýrafjörð í sumar. Lagður verður ljósleiðari frá spennistöð Orkubús Vestfjarða yfir í Brekkudalinn úti í Hóla og þaðan út í Haukadal. Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Snerpu sagði í samtali við Bæjarins besta að þetta yrði 14 km af ljósleiðara og hann bjóst við því að 16 aðilar myndur tengast ljósleiðaranum. Verkefnið er unnið samstarfi við Orkubú Vestfjarða sem notar skurðinn og leggur rafstreng í jörð. Þar með fá notendur þriggja fasa rafmagn og allar loftlínur verða aflagðar.
Í síðustu viku plægði Snerpa 3,2 km streng í jörð frá Alviðru og út að Gerðhömrum. Í fyrra var lagður ljósleiðari um Mýrarhrepp út að Alviðru annars vegar og yfir Höfðaoddann yfir að Brekkuhálsi Þingeyrarmegin hins vegar.
Þegar framkvæmdum verður lokið í sumar má heita að allur Dýrafjörður verði kominn með fyrsta flokks ljósleiðara auk þeirra framfara sem fylgja þrífösun og jarðstrengjum fremur en loftlínum.