Snerpa á Ísafirði stendur í stórræðum í ljósleiðaravæðingu á Vestfjörðum. Þegar hefur verið gerð grein fyrir því að Dýrafjörður verður í haust orðinn tengdur frá Gerðhömrum inn fjörð og út vestanmegin út í Haukadal.
Verið er að leggja þessa dagana 6 km ljósleiðaralögn í Önundarfirði frá Ytri Veðrará inn að Hóli. Í sumar verður einnig lögð 6 km lögn í Tálknafirði fra Sveinseyarþorpinu inn að seiðaeldisstöðinni í fjarðarbotninum.
Þriðja stóra lögnin framundan er 12 km ljósleiðari í Bolungavík frá golfvellinum fram að Reiðhjallavirkjun í Syðridal og þar mun Orkubú Vestfjarða leggja þriggja fasa rafstreng samhliða ljóðleiðaranum. Í Bolungavík verður svo lagður strengur frá golfvellinum í gagnstæða átt að Ósvörinni og loks verður lagt frá Hólsánni og fram Hlíðardalinn að Minni Hlíð.
Að þessu öllu loknu má heita að dreifbýlið í Dýrafirði, Önundarfirði, Tálknafirði og Bolungavík verði allt nettengt í gegnum ljósleiðara. Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Snerpu sagði að gert væri ráð fyrir því að í haust yrði byrjað að tengja þéttbýlið í Bolungavík líka við ljósleiðarann.
Þetta mikla átak á Vestfjörðum tengist sérstöku átaki sem heitir Ísland ljóstengt með sérstakri fjárveitingu frá stjórnvöldum sem gerir kleift að ráðast í ljósleiðaravæðinguna. Til viðbótar framlagi ríkisins kemur framlag frá sveitarfélögunum og tengigjöld frá notendum.