Raggagarður Súðavík: búist við a.m.k. 10 þúsund gestum

Vilborg Arnarsdóttir, aðalhvatamaður að fjölskyldugarðinum Raggagarði í Súðavík segist eiga von á því að meira en 10 þúsund manns muni koma í garðinn í sumar.

Settur var upp teljari í byrjun júní og í gær höfðu 8.358 gestakomur verið skráðar.  Garðurinn er opinn allt árið en með þjónustu yfir sumarmánuðina. Þá eru stólar, borð og bekkir úti ásamt grillum. Vatn er tekið af garðinum og snyrtingum á haustin.

Vilborg segir að fjölbreyttur hópur komi í garðinn, ekki bara fjölskyldufólk heldur einnig útlendingar og fólk er að skoða listaverkin sem eru á Boggutúni og hvalbeinsskýlið sem veitir upplýsingar um hvalveiðar Norðmanna og fyrtsu hvalveiðistöð þeirra, sem var á langeyri í Álftafirði.

Í fyrra varð gerður rekaviðarskógur, en Raggagarður hafði fengið 11 staura og tvær rótarhniðjur frá Pétri bónda í Ófeigsfirði í Árneshreppi.

Raggagarður er skemmtigarður fyrir alla fjölskylduna.  Í garðinum eru borð og bekkir  fyrir 88 manns í sæti auk þess sem þar eru þrjú  röragrill og eitt stórt veislugrill sem skipt er í 5 hólf.

Markmiðið með garðinum er að hlúa að fjölskyldum og efla útiveru og hreyfingu og um leið stuðla að ánægjulegri samveru foreldra og barna. Að halda áfram uppbyggingu Súðavíkur sem ferðamannabæjar og efla afþreyingu fyrir ferðamenn á Vestfjörðum.

DEILA