Í gær voru birtar tvær skemmtilegar vísur um virkjun vindorku í stað Hvalárvirkjunareða með henni eftir þá Indriða á Skjaldfönn og Jón Atla Játvarðsson frá Reykhólum.
Indriði á Skjaldfönn reið á vaðið og vildi virkja vindinn en ekki vatnið:
Nú er lagið vind að virkja
og valda engum spjöllum.
Öræfanna stöðu styrkja
og steypa flónum öllum.
Jón Atli Játvarðsson, Reykhólum svaraði og vildi hvort tveggja:
Þegar á nú vind að virkja
vatn í lónum safnast til.
Blanda og Hvalá stöðu styrkja
í stormi og logni hér um bil.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku sá kveðskapinn á bb.is og segir að þá hafi dottið á skjáinn hjá honum:
Ef að nú skal vindinn virkja
vörumst rjómablíðu.
Orkuöflun skyldi styrkja
með ánum okkar stríðu.