Opið bréf til sjávarútvegsráðherra

Sjávarútvegsráðherra vill svör frá vísindamönnum um hvað tefji uppbyggingu fiskistofna við Ísland. Hann telur vænlegt að leita til manna sem hafa fengið að ráða einu og öllu um nýtingu fiskistofna við Ísland í um þrjá áratugi. Hann telur að auka þurfi fé til rannsókna þessara sömu manna til að auðvelda þeim svörin.

Er ekki allt í lagi, Kristján minn? Ég er nokkuð viss um að aukið fjármagn til Hafrannsóknastofnunar verður eingöngu nýtt til að leita að afsökunum fyrir því að ekki gengur betur en raun ber vitni. Ég er líka nokkuð viss um að þær afsakanir sem finnast verða falskar og marklausar því aðalástæðan fyrir slakri nýliðun er stofnunin sjálf. Þrír áratugir af þrotlausri uppbyggingu þorskstofnsins undir handleiðslu Hafrannsóknastofnunar hafa skilað litlu og orkusóun lífríkisins hefur farið ört vaxandi síðustu tvo áratugina. Fjögurra milljóna tonna þorskafli hefur verið hafður af þjóðinni með smáfiskavernd og aflareglu sem tryggir verulega vannýtingu. Fæðustofnar eru étnir niður í rót og verða varla nýtanlegir til veiða meðan stofnunin fær að halda áfram þessari glórulausu tilraun sinni. Heildarkostnaðurinn er orðinn ómetanlegur, heldur áfram að aukast og verður ekki endurheimtur nema að litlu, því hann er að mestu gufaður upp í orkusóun og lífsbaráttu í lífríkinu og verður aldrei kolefnisjafnaður með örlitlum olíusparnaði togaraflotans eins og málsvarar hans vilja halda fram í glansmyndaáróðri sínum.

Þarf ég að halda áfram með þennan hörmulega vitnisburð? Ef skógarbóndi léti undir höfuð leggjast að grisja skóginn fyrir nýjum vexti er ég nokkuð viss um að flestir sæju mistök hans. Ef bóndi léti undir höfuð leggjast að slátra í samræmi við fóður og beitarland væri vandi hans öllum augljós og hann mundi á endanum lenda í fangelsi fyrir slæma meðferð á dýrum sínum. Hvers vegna þurfa hámenntaðir vísindamenn 30 ára tilraun til að átta sig á að lögmál hafsins eru þau sömu?

Allir fiskistofnar sem lifa í návígi við þessa glorhungruðu orkusugu sem þorskstofninn okkar er orðinn eiga undir högg að sækja. Sama má segja um nýliðunarhluta þorskstofnsins sjálfs. Þrátt fyrir margar ágætar hrygningar síðustu tvo áratugina hefur smáfiskaverndin tryggt lítinn árangur í nýliðun. Það sparar nefnilega ekki síður orku að grisja fyrir vexti ungfiska og minnka afrán á þeim af næstu árgöngum fyrir ofan. Ef sjávarútvegsráðherra léti bera saman þá lífrænu orku sem liggur að baki núverandi þorskafla og þá orku sem lá að baki helmingi meiri þorskafla fyrir 30-40 árum geri ég ráð fyrir að samanburðurinn yrði u.þ.b. á pari. Þá er ekki talin með sú viðbótar orka sem fer í að halda uppi stærri stofni til að geta veitt eldri fisk.

Getur verið að draumurinn um 1920 nýliðaárganginn, sem líklega stafaði af náttúrulegri grisjun áranna á undan, sé þess virði að halda þessari vitleysu áfram í 30 ár í viðbót? Er ekki kominn tími til að „umhverfisjafna“ þessa dýrustu stofnun Íslandssögunar Kristján Þór Júlíusson?

Virðingarfyllst

Sveinbjörn Jónsson

Höfundur er sjómaður og ellilífeyrisþegi.

DEILA