Ísfirðingurinn Sigurður Óli Rúnarsson vann á laugardaginn gull í tveimur greinum í brasilísku jiu-jitsu á móti í húsakynnum VBC í Kópavogi. Mótið var sérstaklega ætlað byrjendum í brasilísku jiu-jitsu og gekk mótið vel fyrir sig. Fjörtíu keppendur voru skráðir til leiks frá fimm félögum. Mótið nefndist Hvítur á leik og vísar nafnið til þeirra sem hafa hvíta beltið í íþróttinni.
MMA stendur fyrir mixed martial arts, sem eru nokkrar mismunandi bardagaíþróttir. Njóta þær vaxandi vinsælda og meðal Íslendinga sem hafa lagt fyrir sér bardagaíþróttir með góðum árangri er Gunnar Nelson.
Keppt var í nokkrum þyngdarflokkum bæði karla og kvenna. Sigurður Óli Rúnarsson keppti fyrir félagið RVK MMR og bar sigur í býtum bæði í 100 kg flokki og opnum flokki.
Sigurður Óli varð Evrópumeistari í íslenskri glímu á móti í apríl síðastliðnum og hefur náð góðum árangri á glímumótum á undanförnum árum auk þess að vera um tíma kraftmikill handknattleiksmaður með ÍR í úrvaldsdeildinni.