Hælar og bönd sem sett voru til að afmarka fornminjar í Ingólfsfirði voru fjarlægð í nótt. Minjastofnun var tilkynnt um verknaðinn og lét Vesturverk ehf vita.
Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri Vesturverks staðfesti þetta í samtali við Bæjarins besta. Hann sagði að þetta væri í norðanverðum Ingólfsfirði. Starfsmaður Minjastofnunar mun koma norður á föstudag til að setja merkin niður aftur.
Gunnar Gaukur sagði að Vesturverk myndi sneiða hjá þessum stöðum og vinna þar sem hægt væri en viðurkenndi að þetta gæti tafið framkvæmdir við vegabæturnar.
Hann sagði að ekki væri vitað hver hafi verið að verki en sagðist gera frekar ráð fyrir að andstæðingur Hvalárvirkjunar hefði verið að verki.
Hrafn Jökulsson hefur sagt í fjölmiðlum að verkið yrði stöðvað og nokkrir andstæðingar virkjunarinnar sendu út á facebook í fyrradag „ákall frá Ströndum – allir norður á umhverfisvaktina.“ Haft var samband við einn þeirra og spurst fyrir um hvað til stæði en viðkomandi hefur ekki viljað svara.