Gagnrýna Hafró fyrir skort á ráðgjöf

Tveir vísindamenn, dr Þorleifur Ágústsson fiskalífeðlisfræðingur og Dr. Þorleifur Eiríksson dýrafræðingur gagnrýna Hafrannsóknarstofnun í aðsendri grein á bb.is.

Segja þeir að stofnunin eigi lögum samkvæmt að veita vísindalegrar ráðgjöf um nýtingu og ræktun nytjastofna sjávar, áa og vatna. En Hafrannsóknarstofnun hafi þann 19. júlí sent frá sér áskorun til veiðifélaga og stangveiðimanna um að gæta hófsemi í veiði og sleppa sem flestum löxum eftir veiði til að bregðast við litlum laxagöngum.

Að þeirra sögn er þetta ekki góð ráðgjöf þar sem veiða og sleppa aðferðin hafi slæm áhrif á laxinn og samrýmist varla reglum um dýravelferð. Þá sýni rannsóknir að laxinn læri að forðast öngulinn og að sá lærdómur flytist yfir á aðra laxa.

Niðurstaðan af ráðgjöf Hafró verði því að „fleiri laxar skaðist við veiðar, fleiri laxar drepist og þeir sem lifi af verði «veiðifælnari» en ella. Ráðgjöfin snýst sem sagt upp í öndverðu sína.“

Benda þeir á að í Noregi hafi verið gripið til þess ráðs við þessar aðstæður að banna veiðar í því skyni að  byggja upp stofninn og spyrja:

„Hví grípa menn þá ekki til sömu ráða á Íslandi líkt og Norðmenn hafa gert? Banna veiðar. Tímabundið eða alveg í einstökum ám? Hefja alvöru verndun, uppbyggingu sem mun tryggja íslenska laxinum bjarta framtíð.“

DEILA