Byggðastofnun er með samning Byggðastofnunar við West Seafood ehf., ÍS 47 ehf. og Hlunna ehf. til skoðunar hjá stofnuninni. Þetta staðfestir Sigurður Árnason, sérfræðingur hjá stofnuninni. Hann segir ekki hægt að gefa nánari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Gísli Jón Kristjánsson eigandi ÍS47 ehf sagðist ekkert vita hvað Byggðastofnun hyggðist fyrir þegar Bæjarins besta hafði samband við hann. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi öðru sinni um aflamark á Flateyri, eins og það er bókað, á fundi sínum á mánudaginn. Hafdís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs vildi ekkert segja um málið og benti á að bæjarráð hefði bókað í trúnaðarmálabók bæjarráðs.
Byggðastofnun gerði í fyrra nýjan sex ára samning um ráðstöfun Byggðastofnunarkvótans. Árlega er úthlutað 400 þorskígildum til þeirra sem eru aðilar að samningnum eða samtals 2.400 þorskígildi á samningstímabilinu. Verðmæti kvótans á þessum sex árum, sem úthlutað er endurgjaldslaust, er liðlega hálfur milljarður króna. Það eru því miklir fjármunir undir.
Samstarf samningsaðila hefur gengið illa. West Seafood ehf hefur dregið að greiða hinum samningsaðilunum fyrir landaðan fisk til vinnslu félagsins. Gekk það svo langt að ÍS47 ehf krafðist gjaldþrots West Seafood til þess að fá greidda útistandandi kröfu upp á um 10 milljónir króna. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta mun West Seafood einnig var í vanskilum við Hlunna ehf.
Starfsemi West Seafood hefur verið afar takmörkuð um nokkurt skeið og virðist nokkuð augljóst, þótt engin svör fáist á þessu stigi málsins, að Byggðastofnun sé að skoða alvarlega að taka upp Flateyrarsamninginn í því skyni að tryggja að markmið hans um atvinnusköpun náist. Sé það rétt til getið að endurráðstöfun kvótans sé í undirbúningi koma upp spurningar um hvort það sé unnt án nýrrar auglýsingar eftir aðilum.