Árneshreppur: dómi um hreppsnefndarkosningar áfrýjað til Landsréttar

Ólafur Valsson hefur áfrýjað til Landsréttar dómi Héraðsdóms Vestfjarða um hreppsnefndarkosningarnar 2018.

Þann 10. maí 2019 kvað Héraðsdómur upp þann úrskurð í kærumáli Ólafs Valssonar og Elíasar Kristinssonar að vísað var frá dómi þeirri kröfu stefnenda, Elíasar  og Ólafs,að viðurkennt yrði með dómi að framkvæmd og undirbúningur sveitarstjórnarkosninga í Árneshreppi 2018, sem fram fóru 26. maí 2018, hafi ekki uppfyllt kröfur laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.

Stefndi, Árneshreppur, var sýknaður af þeim kröfum stefnenda að niðurstaða sveitarstjórnarkosninganna yrði ógilt með dómi og að allar stjórnarathafnir starfandi hreppsnefndar í hreppnum sem gerðar höfðu verið eftir að talningu atkvæða lauk og niðurstaða kosninganna var kunngjörð, yrðu ógiltar.

Stefnendum var gert að greiða Árneshreppi 1 milljón króna í málskostnað.

Athygli vekur að aðeins Ólafur Valsson er tilgreindur á vef Landsréttar sem áfrýjandi og virðist því sem Elías Kristinsson standi ekki að áfrýjuninni.

Ekki liggur fyrir hvenær málið verður tekið fyrir í Landsrétti.

DEILA