Úrskurðarnefndin hafnaði kærum um ógildingu laxeldis í Dýrafirði

Frá Dýrafirði. Mynd: lf.is

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur afgreitt tvær kærur um 4000 tonna  ársframleiðslu á laxi eða regnbogasilungi í sjókvíum í Dýrafirði sem Arctic Sea Farm hf hafði fengið leyfi til. Annars vegar er það starfsleyfi sem Umhverfisstofnun hafði veitt og hins vegar rekstrarleyfi sem Matvælastofnun hafði gefið út. Starfsleyfið var gefið út 22. nóvember 2017 og rekstrarleyfið þann 22. desember 2017. Krafist var að leyfin yrðu úrskurðuð ógild.

Bæði leyfin voru kærð í janúar 2018 til Úrskurðarnefndarinnar og hefur verið þar til meðferðar síðan. Nefndin segir í báðum úrskurðunum að uppkvaðning „úrskurðar í máli þessu hefur tafist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.“

Kærendur

Kærendur voru þeir sömu í báðum málunum. Þeir eru : Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Akurholt ehf. og Geiteyri ehf., sem eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, eigandi Kirkjubóls í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Fífustaðadalsá, eigandi Grænuhlíðar í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Bakkadalsá, Fluga og net ehf., sem  rekstrarfélag Vatnsdalsár á Barðaströnd, eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi, Varpland ehf., sem eigandi hluta veiðiréttar í Langadalsá og Hvannadalsá og Veiðifélag Laxár á Ásum.

Vísað frá

Tveir kærendanna töldust ekki uppfylla skilyrði þess að eiga kæruaðild. Það voru Náttúruverndarsamtök Íslands og náttúruverndarfélagið Laxinn lifi og var kæru þeirra vísað frá úrskurðarnefndinni. Rökstuðningur Úrskurðarnefndarinnar er sá að framkvæmdin var ekki háð mati á umhverfisáhrifum og við þær aðstæður hafa náttúrurverndarsamtök ekki kærurétt. Bendir nefndin á að almenna reglan sé sú að þeir geti kært sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta. Undantekning er  þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni ef um er að ræða matsskylda framkvæmd.

Kröfum tveggja annarra kærenda var einnig vísað frá, veiðiréttarhafa í Haffjarðará og Veiðifélags Laxár á Ásum þar sem „fjarlægð ánna frá fiskeldi leyfishafa og þeim litla fjölda laxa sem sennilegt verður að telja að í þær geti gengið verður hins vegar ekki talið að þeir hagsmunir séu svo verulegir af úrlausn kæruefnisins að þeir uppfylli skilyrði þess að geta talist lögvarðir“ segir í úrskurðinum. Með öðrum orðum, árnar tvær eru svo langt frá Dýrafirði að samkvæmt áhættumati Hafrannsóknarstofnunar, sem lagt var fram fyrir nefndina eru hverfandi líkur á erfðafræðilegum áhrifum á laxastofnana í umræddum tveimur ám.

Kröfum hafnað

Krafan  frá öðrum kærendum var tekin til meðferðar þar sem þeir töldust eiga hagsmuna að gæta og fór Úrskurðarnefndin yfir sundurliðaða kröfugerð lið fyrir lið. Niðurstaðan var að hafnað er kröfu annarra kærenda um ógildingu leyfanna þar sem „hin kærða ákvörðun um útgáfu starfsleyfis er hvorki haldin þeim form- né efnisannmörkum að raskað geti gildi hennar.“

Niðurstaðan er að Arctic Sea Farm heldur leyfi sínu í Dýrafirði. Talsmaður Arctic Fish segir að útgáfa leyfisins fari ekki gegn lögum um fiskeldi né náttúruverndarlögum. Þá er málsmeðferðin við útgáfu leyfisins sé sömuleiðis talin í samræmi við gildandi lög og reglur og hvort tveggja skipti miklu máli.

Mikilvægt fordæmi

Þá er á það bent að þessu mál séu alveg eins og leyfismálin í Arnarfirði sem Úrskurðarnefndin ógilti síðastliðið haust vegna skorts á valkostagreiningu. Þar hafi meira að segja verið sömu kærendur. Þá hafi úrskurðarnefndin ekki tekið afstöðu til einstakra annarra atriða í kærunum. En þessir úrskurðir leggi línuna fyrir því hvernig leyfin í Tálknafirði og Patreksfirði  verða afgreidd fyrir Úrskurðarnefndinni ef til þess kemur síðar.

 

 

DEILA