Sigurður Mar ljósmyndari opnar sýninguna Undan vetri í Slunkaríki í Edinborgarhúsinu 17. júní klukkan 15:00. Léttar veitingar verða í boði og allir velkomnir
Ljósmyndir Sigurðar Mar eru eftirtektarverðar fyrir dulúð og draumkennd, teknar með sérútbúnum linsum og aðferðum sem Sigurður hefur þróað með sér um árabil. Á myndunum er vaknandi jörð, á leið undan vetri, þar sem tilfinningin fyrir vorinu glæðir þær lífi.
Það er allavega ein leið til að njóta þeirra en í raun er boðskapurinn kannski eilítið myrkari.
Ef staldrað er við og horft frá öðru sjónarhorni, má ímynda sér landslag þar sem heimshvörf og depurð vofa yfir. Hvað ef náttúran festist í þessum lífvana dvala og lægi í fjötrum það sem eftir væri. Ef umgengni mannsins um jörðina heldur áfram að markast af mengun og virðingarleysi gætum við misst þessa hlýju tilfinningu sem springur út á vorin, því það kæmi aldrei aftur vor.
Sýningin verður opin á opnunartíma Edinborgarhússins og mun standa uppi út júnímánuð.