Laugardaginn 8. júní kl. 14 opnar sýning Önnu Andreu Winther PÖNNUKÖKUVERKUNIN í Úthverfu á Ísafirði.
Anna Andrea hefur dvalið undanfarnar vikur í gestavinnustofum ArtsIceland á Ísafirði og er sýningin byggð á rannsóknarvinnu listakonnunar þessar vikur sem hún hefur dvalið á Ísafjarðarsvæðinu.
,,Saltfiskvinnsla fyrri tíma á Ísafirði birtist mér einkum í gegnum myndir og landslag bæjarins. Ég sé fyrir mér konur standa í stöðvum við fjöruna. Þær taka við fisknum, þvo upp úr vatni með snöggum hreyfingum, salta og stafla. Flakið er svo lagt flatt á steinabreiðuna og því snúið reglulega meðan það þurrkast í sólinni. Loks er fisknum staflað í háar og myndarlegar stæður sem minna mig á múrvegg. Ég set hreyfingarnar þeirra í samhengi við hvernig amma mín bakar pönnukökur. Hún stendur við eldhúshelluna sem stillt er á lágan hita. Blandar þurrefnum í mjólk og hrærir saman. Hellir síðan deiginu sem mótast í þunnan flöt þegar hún handleikur smjörsmurða pönnuna. Hver á fætur annarri staflast pönnukökurnar upp og mynda háa stæðu á myndskreyttum diski.’’
PÖNNUKÖKUVERKUNIN eftir Önnu Andreu Winther er gjörningur þar sem hún sviðsetur stöðvar byggðar á vinnuaðstöðu kvenna í saltfiskvinnslunni á Ísafirði á 19. og 20. öld og verkar pönnuköku uppskrift ömmu sinnar, sem ættuð er frá Ísafirði, samkvæmt þeim aðferðum. Hún gerir tilraun til þess að kynnast hálf framandi vinnu formæðra sinna í gegnum uppskrift sem er henni kunnug og kær. Í þessu ferli er ólíkum uppskriftum eða verkunarhefðum íslenkra kvenna frá mislangri fortíð fléttað saman.
Anna Andrea Winther (f. 1993) er íslensk myndlistakona sem starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2018 ásamt því að hafa lokið skiptinámi við Skúlptúrdeild Edinburgh College of Art. Einnig lauk hún starfsnámi hjá Önnu Rún Tryggvadóttur árið 2018.
Verkið verður til sýnis alla daga í Gallerí Úthverfu frá 8. – 17. júní 2019. Verkunin byrjar kl. 14 á daginn og stendur yfir til klukkan 18:00.
Verkefnið er styrkt af Vestfjarðastofu, Myndlistarsjóði og ArtsIceland.