Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda var haldin á Patreksfirði í þrettánda sinn um hvítasunnuhelgina. Fjótán íslenskar heimildamyndir voru frumsýndar og sex verk í vinnslu. Hátíðinni lauk formlega á sunnudagskvöld en samkvæmt hefðinni gengu gestir hátíðarinnar fylktu liði í skrúðgöngu frá Skjaldborgarbíói í Félagsheimili Patreksfjarðar að lokinni síðustu mynd og atkvæðagreiðslu. Verðlaunaafhending fór fram í félagsheimilinu áður en hljómsveitin Bjartar sveiflur lék fyrir dansi á lokaballi hátíðarinnar.
Áhorfendaverðlaunin, Einarinn, hlaut heimildamyndin Vasulka áhrifin eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur sem fjallar um videolistamennina og frumkvöðlana Steinu og Woody Vasulka sem hafa haft ótvíræð áhrif á þróun seinni endurreisnar tímabilsins í listum. Þau eru á áttræðisaldri og í fjárkröggum en fyrir tilviljun eru þau enduruppgötvuð af listaheiminum sem þau töldu sig aldrei hluta af og skjótast aftur upp á stjörnuhimininn. Vasulka áhrifin var kynnt sem verk í vinnslu árið 2017 og komu Vasulka-hjónin jafnframt á hátíðina það ár sem heiðursgestir.
Heimildamyndin Í sambandi (In Touch) eftir Pawel Ziemilski hlaut dómnefndarverðlaunin Ljóskastarann en hún fjallar um pólska íbúa á Íslandi og hvernig þeir halda tengslum við sína nánustu. Ástarsamband íslensks manns og pólskrar konu er forsagan að miklum brottflutningum frá einum smábæ í Póllandi en í kjölfarið fluttu 400 manns frá þeim bæ til Íslands og enginn hefur snúið aftur.
Dómnefndin, sem samanstóð af leikstjóranum Hafsteini Gunnari Sigurðssýni, Margréti Örnólfsdóttur, handritshöfundi, og Önnu Þóru Steinþórsdóttur, tvöföldum sigurvegara frá hátíðinni í fyrra, hafði eftirfarandi að segja um verðlaunamyndina “Þetta er hrífandi, úthugsað, djarft og frumlegt verk sem skapar sitt eigið tungumál og miðlar stórri sögu á áhrifamikinn hátt. Leikstjórinn býr yfir næmni og hefur mikil og góð tök á miðlinum. Við viljum þakka kvikmyndagerðarmönnunum fyrir að opna augu okkar fyrir hluta af okkar menningu sem okkur hulinn.”
Því miður átti leikstjórinn ekki heimangengt en fékk hlýjar kveðjur heim til Póllands strax að lokinni verðlaunaafhendingu. Meðframleiðandi myndarinnar, Anton Máni Svansson, veitti þeim viðtöku fyrir hönd Join Motion Pictures.
Hrund Atladóttir tók myndir af verðlaunahöfunum, Hrafnhildi Gunnarsdóttur, sem fékk áhorfendaverðlaunin og Antoni Mána Svanssyni sem fékk dómnefndarverðlaunin.