Púkamótið: bæjarstjórinn á Ísafirði vann

Guðmundur Gunnarsson á sigurbraut í vitaspyrnukeppninni.

Púkamótið 2019 hófst í gær með vítaspyrnukeppni. Hæst bar þar keppni bæjarstjóranna í Bolungavík og á Ísafirði. Tók hvor þeirra fimm spyrnur og fór svo að Guðmundur Gunnarsson, Bolvíkingur og bæjarstjóri á Ísafirði hafði betur. Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri í Bolungavík varð fyrir meiðslum í annarri spyrnu og áttu eftir það á brattan að sækja.

Jón Páll í aðdraganda meiðslanna.

Þá öttu kappi í vítaspyrnukeppni fulltrúar Harðar og Vestra, íþróttafélaganna á Ísafirði. Jóhann Torfason tók spyrnurnar fyrir Hörð og Haraldur Leifsson var fulltrúi Vestra.

Varð sú keppni jöfn og spennandi. Eftir fimm spyrnur voru þeir jafnir með fjórar heppnaðar spyrnur hvor og var þá gripið til bráðabana. Það var ekki fyrr en í þriðju umferð bráðabanans að Hörður hafði betur. Jóhann skoraði að öryggi en Haraldur skaut boltanum bylmingsfast í samskeytin efst hægra megin og boltinn fór ekki inn í markaði. Þetta var að vísu glæsileg spyrna og hefði verðskuldað tvö stig eða svo.

Jóhann Torfason öryggið uppmálað.

Loks fór fram vítaspyrnukeppni annarra þátttakenda. Voru um 20 keppendur og þurfti fjórar umferðir áður en úrslit lágu fyrir. Það var Halldór Eraclides sem reyndist sparkvissastur og sigraði örugglega.

Stórir strákar eru alltaf tilbúnir.
DEILA