Ný vestnorræn byggðaþróunarstefna samþykkt

Að loknum fundi norrænna byggðamálaráðherra. Frá vinstri: Paula Lehtomäki framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Sigurður Ingi Jóhannsson (ÍS), Anders Ygeman (SVÍ), Monica Mæland (NO), Linnéa Johansson (ÁL), Halla Nolsøe Poulsen (FÆR) og Torsten A. Andersen (DK).

Norræna ráðherranefndin í byggðaþróun (MR-R) samþykkti á fundi sínum síðdegis í gær nýja byggðaþróunarstefnu fyrir vestnorræna svæðið, þ.e. Ísland, Grænland, Færeyjar og norður- og vesturhluta Noregs og gengur stefnan undir nafninu NAUST.

Stefnumörkuninni er ætlað að vísa veginn í vestnorrænu samstarfi með því að bregðast við áskorunum sem snúa að byggðaþróun. Í stefnumörkuninni er áhersla lögð á að styrkja tengsl lykilaðila á svæðinu, efla sjálfbæra þróun byggðarlaga og styrkja og þróa grunnatvinnuvegi.

Forgangsröðun verkefna mun byggja á eftirfarandi áherslusviðum: Velferðar- og jafnréttismál, málefni hafsins og bláa hagkerfið, orkumál, samgöngur og björgun á sjó og sjálfbærni í ferðaþjónusta og menningarmál.

Ísland átti frumkvæðið
Ísland lagði til á formennskuári sínu í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 að hefja vinnu við að móta stefnu fyrir vestnorræna svæðið. „Ég fagna því að norrænu byggðamálaráðherrarnir hafi samþykkt stefnuna. Hún beinir aukinni athygli að svæði sem verður sífellt áhugaverðara í alþjóðasamstarfi. Á Norður-Atlantshafssvæðinu eru einstök sóknarfæri en jafnframt sameiginlegar áskoranir. Það er mikilvægt að við eflum samstarf okkar á þessu svæði,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður norrænu ráðherranefndarinnar í byggðaþróun.

DEILA