Laxeldið er hluti af lausninni en ekki vandanum

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax segir ánægjulegt að meiri skilningur og áhugi er nú á laxeldinu en var fyrir fimm árum. Hann segir að æ fleirum verði ljóst að laxeldið er hluti af lausninni á vandamálum sem við er að glíma í loftslagsmálum og efnahagsmálum þjóðarinnar en er ekki vandamálið eins og stundum er verið að draga upp í umræðunni.

Kjartan segir jafnframt spurður um mat hans á stöðunni að hann telji að meginþorri stangveiðimanna sé að hans mati skynsamur og hafi áttað sig á mikilvægi þess að stangveiðin og fiskeldið vinni saman.

Kjartan er ekki ánægður með stjórnarfrumvarpið um fiskeldi sem nú er til annarrar umræðu á Alþingi og stefnt er að verði gert að lögum næstu daga. Hann segir að eldismenn séu ekki aðilar að þeirri sátt sem framsögumaður stjórnarflokkanna í umræðunni segir að sé um tillögurnar.  Kjartan rifjar upp að það hafi verið gerð sátt árið 2004 um skiptingu svæða milli fiskeldis og stangveiðinnar og nú sé þeirri sátt ýtt til hliðar.

Kjartan ber saman tvö mál sem eru samtímis til umfjöllunar Alþingis, úthlutun markríls og laxeldið og bendir á hversu ólík nálgun Alþingis er varðandi skattlagningu og úthlutun leyfa. „Það er lítið samræmi í relgunum í þessum tveimur málum“ segir Kjartan.

DEILA