Kolbeinn Óttarsson Proppe, framsögumaður Atvinnuveganefndar Alþingis í afgreiðslu nefndarinnar á frumvarpi um fiskeldi sem varð að lögum fyrir þingfrestun vísar á væntanlega endurskoðun Hafrannsóknarstofnunar á mati stofnunarinnar á hættu á erfðablöndun milli eldislax og villts lax þegar spurt var um laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Þetta kom fram á fundi þingmanna Vinstri grænna á laugardaginn á Ísafirði.
Fyrir tveimur árum stöðvaði Hafrannsóknarstofnun áform um laxeldi í Djúpinu og bar við að áhættan af erfðablöndun væri of mikil í þremur ám, Laugardalsá, Langadalsá og Hvannadalsá. Nýju lögin um fiskeldi lögfestu áhættumatið og styrkja þannig stöðu Hafrannsóknarstofnunar til þess að koma í veg fyrir laxeldi þar sem stofnunin telur áhættuna á erfðablöndun of mikla.
Nýtt áhættumat
Kolbeinn sagði að það væri Hafrannsóknarstofnunar að gera nýtt áhættumat svo fljótt sem verða má og það yrði að bíða niðurstöðu þess. Hann vissi ekki hver útkoman yrði.
Kolbeinn var einnig spurður að því hvort nýju lögin gerðu það að verkum að fyrirliggjandi umsóknir um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi héldu gildi sínu eða hvort þær féllu niður, en mikið var tekist á um það á lokasprettinum á Alþingi hvernig fara ætti með óafgreiddar umsóknir. Falli umsókn niður þarf að hefja allt umsóknarferlið að nýju þrátt fyrir að umsókn hafi verið lögð inn fyrir allt að 7 árum og umsóknarfyrirtækið missir forgang að því svæði sem eldið á að vera á. Fiskeldisfyrirtækin lögðu því mikla áherslu á að sem flestar umsóknir héldu gildi sínu.
Skoðaði ekki áhrif á umsóknir
Kolbeinn Óttarson Proppe svaraði því til að hann hefði ekki skoðað hvaða áhrif lagasetningin hefði á einstakar umsóknir og taldi það ekki verkefni alþingismanna að skoða áhrif á einstök fyrirtæki. Spurt var sérstaklega um umsóknir Arctic Fish og Háafells um fiskeldi í Djúpinu og hvaðst Kolbeinn ekki geta svarað því hvort þær umsóknir væru áfram gildar eða hvort þær féllu niður.
Hlynnt laxeldi í Djúpinu
Lilja Rafney Magnúsdóttir sagðist vera hlynnt því að laxeldi yrði heimilað í Ísafjarðardjúpinu og Hafrannsóknarstofnun yrði að við endurmat á áhættunni á erfðablöndun að taka tillit til mótvægisaðgerða. Lilja Rafney sagðist bjartsýn á að eitthvað færi að gerast.
Rauntímavöktun og mótvægisaðgerðir
Ari Trausti Guðmundsson vísaði til umsagnar Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um fiskeldisfrumvarpið og lagði áherslu á rauntímavöktun og rannsóknir fremur er spálíkan við áhættumatið. Í áliti nefndarinnar segir orðrétt: „Því þó unnið sé með spálíkön eins og áhættumat í upphafi er mikilvægt að til lengri tíma verði byggt á rauntölum úr rannsóknum og stöðugri vöktun.“