Kynningarfundur á Ísafirði í gær um nýja heilbrigðisstefnu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra efndi til opins fundar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 á Ísafirði í gær.

Fundurinn hófst með umfjöllun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem kynnti megináherslur og inntak stefnunnar. Næst fjallaði Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um þá sýn sem hann hefur á stefnuna og hvaða áhrif hann telur að hún geti haft fyrir heilbrigðisþjónustu við íbúa í heilbrigðisumdæminu. Þátttakendur í pallborðsumræðum voru auk frummælenda Elsa B. Friðfinnsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Helga Sif Friðjónsdóttir, deildarstjóri göngudeildar geðsviðs Landspítala og Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar. Fundarstjóri var Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða.

Fyrir fundinn heimsótti heilbrigðisráðherra hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík, kynnti sér starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði, ræddi við starfsfólk og fundaði ásamt fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins með framkvæmdastjórn stofnunarinnar. Í henni eiga sæti Gylfi Ólafsson forstjóri, Andri Konráðsson framkvæmdastjóri lækninga, Hörður Högnason framkvæmdastjóri hjúkrunar, Kristjana Milla Snorradóttir mannauðs- og rekstrarstjóri, Svava Magnea Matthíasdóttir hjúkrunarstjóri Patreksfirði og Þórir Sveinsson fjármálastjóri.

DEILA