Kvennahlaup í 30 ár

Fréttatilkynning:

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í þrítugasta sinn í dag, laugardaginn 15. júní, í blíðskaparveðri um allt land. Frábær þátttaka var í hlaupinu í dag en gera má ráð fyrir að um 10.000 konur hafi tekið þátt á yfir 80 stöðum um allt land og víða erlendis. Að vanda var boðið upp á mismunandi vegalengdir eða allt frá 900 m upp í 10 km. Mikil og góð stemning var hjá þátttakendum konum sem körlum, ungum sem öldnum sem fögnuðu 30 ára afmælinu með okkur í dag. Gleði og kátína skein úr hverju andliti þegar konur á öllum aldri komu saman og áttu skemmtilega stund þar sem sumar hlupu en aðrar gengu. Rúmlega 3000 manns hlupu í Garðabæ, rúmleg 1000 í Mosfellsbæ, rúmlega 300 á Akureyri, hátt í 300 í Reykjanesbæ og rúmlega 100 á Ísafirði og Egilsstöðum.

Í 30 ár hafa þúsundir kvenna um allt land notið þess að hreyfa sig saman í Kvennahlaupinu og í því hafa konur getað sameinað tvo mikilvæga þætti í lífinu, hreyfingu og samveru. Fyrsta Kvennahlaupið var haldið 30. júní árið 1990 í Garðabæ og var það haldið í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Lovísa Einarsdóttir kom með hugmyndina frá Finnlandi og þótti við hæfi að bjóða upp á eitthvað nýtt sem höfðaði til almennings á Íþróttahátíðinni.

Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og lögð er áhersla á að allir komi í mark á sínum hraða og með bros á vör. Það sem er svo skemmtilegt við Kvennahlaupið er að þar koma saman konur á öllum aldri. Mjög algengt er að margir ættliðir fari saman í hlaupið og geri sér jafnvel glaðan dag saman að hlaupi loknu.

Öldrunarheimili víðsvegar um land hafa boðið sínu heimilisfólki að taka þátt í Kvennahlaupinu í vikunni sem er að líða. Mikil ánægja er meðal heimilisfólks með þetta framtak og kapp er lagt í að virkja alla til þátttöku. Karlmennirnir hafa þá gjarnan tekið á móti konunum og veitt þeim verðlaunapeninga.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands þakkar öllum þátttakendum fyrir þátttökuna í ár.

DEILA