Göngubolti í fyrsta sinn á Púkamótinu

Haraldur Leifsson Vestrapúki.

Á föstudaginn verður Púkamótið sett á Ísafirði. Í frétt um mótið á sínum tíma kom fram að á mótinu verði í fyrsta sinn keppt í svokölluðum göngubolta. Töldu margir lesendur, að vonum, að hér væri um prentvillu að ræða. Svo er ekki.

Haraldur Leifsson einn af frumkvöðlum Púkamótsins segir í samtali við bb.is að þessa íþrótt megi rekja til Bretlands og þar hafi fyrsta deildakeppnin í íþróttinni verið haldin árið 2011. Síðan hafi íþróttin breiðst hratt út um heiminn. Hér á landi hófust æfingar undir merkjum Þróttar í Reykjavík fyrir nokkrum misserum. Markmið gönguboltans er einfalt, að gefa fólki kost á að spila fótbolta eins lengi og mögulegt er og styrkt þannig áfram líkama og sál.

Haraldur segir að fótboltamenn eldist eins og annað fólk og nú stundi menn íþróttir mörgum áratugum lengur en áður var. „Sumir kunna sér aldrei hóf í íþróttum þrátt fyrir háan aldur og því er gönguboltinn kærkomin viðbót fyrir þá áköfustu.“ Þá bætir Haraldur við að framfarir í læknavísindum hafi gefið mönnum kost á ísetningu varahluta sem lengt hafi íþróttaferilinn, þó auðvitað verði menn ávallt að fara varlega.

„Ég hef sjálfur notið þess að fá nýja liði og ætti því í raun að vera af árgerð 1962 en ekki 1958. Mér finnst hins vegar rétt að fara varlega fyrstu árin eftir varahlutaskiptin og því er gönguboltinn frábær lausn fyrir mig því ég hef einangrast í dómarastarfinu undanfarin ár. Ég er þess fullviss að ég mun slá í gegn að nýju þó erfitt verði fyrir mig að lúta þeirri reglu að sóknarmenn megi ekki fara inn í vítateig. Satt best að segja bjó ég í vítateig andstæðinganna allan minn feril.“

Á undanförnum árum hefur vösk sveit manna undir stjórn séra Magnúsar Erlingssonar í Feitafélaginu æft það sem þeir hafa kallað bumbubolta. Haraldur segir göngubolta henta slíkum íþróttamönnum afar vel og vonast til þess að sjá í það minnsta hluta þeirrar vösku sveitar keppa í Púkamótinu. „Ég trúi að Púkamótið í ár verði tímamótamót“ segir Haraldur að lokum. Skráning á Púkamótið fer fram á slóðinni http://pukamot.is/skraning-a-pukamotid-2019/

DEILA