Fiskeldisfrv: unnið gegn Ísafjarðardjúpinu

fréttaskýring:

Kolbeinn Óttarson Proppe, framsögumaður meirihluta Atvinnuveganefndar Alþingis segir að verið sé að skoða athugasemdir við breytingartillögur meirihlutans sem varða gildi og afdrif umsókna um fiskeldi sem eru óafgreidd. Þar á meðal eru umsagnir um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi sem hafa verið árum saman að velkjast innan opinberra stofnana.

„Við erum að skoða athugasemdir við þá grein og fara yfir hvernig við getum orðað hana skýrar svo vilji nefndarinnar, sem kemur fram í álitinu, nái fram að ganga. Við erum ekki komin með breytingartillögu þar um, en vinnum að henni og því að þetta verði skýrt og ljóst og laust við matskennd ákvæði.“ segir Kolbeinn í skriflegu svari við fyrirspurn Bæjarins besta.

Óttast er að umsóknirnar muni falla niður og að fyrirtækin sem að umsóknunum standa muni þurfa að byrja ferlið frá grunni. Ástæðan er sú að frumvarpstextinn og breytingartillögur meirihluta Atvinnuveganefndar skilja það eftir fyrir stofnanir að túlka framhaldið og forstöðumenn þeirra hafi það í hendi sér að stöðvar þannig fiskeldi í Ísafjarðardjúpinu og víðar á Vestfjörðum. Búist var við breyttum breytingatillögum frá meirihlutanum í síðustu viku en þær hafa ekki enn litið dagsins ljós.

Heimildarmenn Bæjarins besta telja þessa töf til marks um að kjarninn í átökunum um uppbyggingu fiskeldisins snúist einmitt um Ísafjarðardjúp. Komist laxeldið þar af stað sé atvinnugreinin orðið það umsvifamikil á landsvísu að mikil efnahagsleg þýðing fyrir þjóðarbúið geri það að verkum að ekki verði aftur snúið. Andstæðingar fiskeldisins innan sem utan stjórnarflokkanna leggi því allt kapp á að stöðva öll áform um laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

Minnihluti atvinnuveganefndar, sem er skipuð Pírötum , Samfylkingu og Viðreisn, hefur ekki enn birt álit sitt og breytingartillögur. Albertína Elíasdóttir, einn þingmanna minnihlutans í málinu  varð ekki við ósk Bæjarins besta í gær um að fá álitið sent. Í morgun boðaði Albertína að álitið yrði birt í dag. Það er athyglisvert í því ljósi að þingmenn minnihlutans gerðu grein fyrir álitinu í Morgunblaðinu á laugardaginn. Þar kom fram hjá Albertínu að í tillögum minnihlutans yrði miðað við að umsóknir sem bærust eftir 5. mars yrðu afgreiddar eftir nýju lögunum. Það er samkvæmt heimildum Bæjarins besta talið þýða að allar umsóknir sem ekki hafa fengið álit Skipulagsstofnunar fyrir þann dag muni í raun falla niður og uppbyggingaráform muni því tefjast um mörg ár. Það mun samkvæmt sömu heimildum einnig hafa í för með sér að umsóknin um 14.500 tonna fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði, sem Skipulagsstofnun hefur þó gefið álit sitt á,  muni líka falla niður þar sem álit Skipulagsstofnunar er dags 16. maí.

Átökin um fiskeldið eru í raun hörðustu átökin sem fram fara á löggjafarþinginu þessa dagana og umræður um orkupakka 3 eru eru aðeins sjónhverfing sem fela þá staðreynd.

Í Krossgötum, riti Vestfjarðastofu er dregið fram að  að 70 þús. tonna fiskeldi á Vestfjörðum gæti skilað 65 milljarða heildarverðmæti, eða um 730 beinum störfum og um 420 afleiddum störfum, eða samtals um 1.150 störfum.

Á landsvísu eru öll merki um að hægt verði á fáum árum að auka laxeldið upp í 200 þúsund tonna ársframleiðslu. Slík framleiðsla myndi skila fáheyrðum tekjum í þjóðarbúið sem kæmu sér vel á næstu árum , tímabili afturkipps í efnahagslífinu,  með tilheyrandi lífkjarabata fyrir allan almenning, að ekki sé talað um uppsveifluna fyrir Vestfirði.

-k

 

DEILA