Í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs er fjallað um fasteignamarkaðinn á Vestfjörðum. Sagt er að hann sé nokkuð frábrugðinn því sem þekkist annars staðar á landinu. Meðalaldur íbúða og stærð er meiri en annars staðar. Meðalaldur íbúða á Vestfjörðum er 52 ár og meðalstærð 130 fermetrar en á landinu öllu er meðalaldur íbúða 38 ár og meðalstærð 122 fermetrar.
Herbergi eru fleiri í hverri íbúð á Vestfjörðum en almennt á landsvísu. Fyrir vestan eru að meðaltali 4,6 herbergi í hverri íbúð samanborið við 4,1 herbergi á landsvísu.
Þá eru 57% íbúðarhúsnæðis á Vestfjörðum einbýlishús samanborið við einungis 15% á höfuðborgarsvæðinu. Á höfuðborgarsvæðinu eru 63% allra íbúða í fjölbýlishúsum samanborið við 19% íbúða á Vestfjörðum.
Fasteignaverð hefur hækkað á Vestfjörðum á undanförnu ári
Í skýrslunni kemur fram að fasteignaverð á Vestfjörðum hækkað að meðaltali um 42% á fyrstu fjórum mánuðum ársins frá sama tímabili ársins 2018 og ásett verð í fasteignaauglýsingum hafi hækkað á sama tíma um 35% á sama tíma og heldur hefur dregið úr verðhækkunum íbúðarhúsnæðis heilt yfir landið frá árinu 2017.
35% hækkun
Ef skoðuð er þróun í 6 mánaða hlaupandi meðaltali söluverðs og ásetts verð mælast nokkuð myndarlegar hækkanir á Vestfjörðum eða 35% árshækkun söluverðs og 26% hækkun á ásettu verði íbúðarhúsnæðis á svæðinu yfir sama tímabil segir í skýrslunni.
Þessar upplýsingar eru athyglisverðar einkum þegar þær eru bornar saman við nýlegar tölur um litla hækkun á fasteignamati íbúðarhúsnæðis utan Ísafjarðar sem Þjóðskrá íslands hefur birt.