Áskorun forseta ASÍ til sveitarfélaga á landinu

Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Í tilefni þess að nú liggur fyrir fasteignamat fyrir næsta ár ætlast Alþýðusamband Íslands til þess að sveitarfélög standi við yfirlýsingar gefnar í tengslum við kjarasamninga í apríl og lækki álagsprósentur fasteignaskattsins vegna ársins 2020. Þannig má koma í veg fyrir að hækkun fasteignamats skili sér sjálfkrafa í skattahækkun til almennings í gegnum hærri álagningu.

Launafólk á almennum vinnumarkaði gekk til samninga og samþykkti þá með því fororði að hið opinbera legðist á árarnar með aðilum vinnumarkaðarins við að halda aftur af útgjaldaaukningu heimila landsins. Stoðirnar undir þeim samningum voru yfirlýsingar stjórnvalda, þar með talin yfirlýsing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nú þegar hefur það sveitarfélag þar sem fasteignamat hækkar mest, Akranes, lýst því yfir að skatthlutfallið verði lækkað þannig að ekki komi til skattahækkunar á heimili. Við fögnum því og hvetjum önnur sveitarfélög til að axla ábyrgð og standa með launafólki til að markmið nýgerðra kjarasamninga um aukinn kaupmát, lága verðbólgu og lægri vexti og nái fram að ganga. ASÍ mun í framhaldinu fylgjast vel með gjaldskrábreytingum sveitarfélaganna og viðbrögðum þeirra við hækkun fasteignamats.

Bréfið var sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga 7. júní 2019

DEILA