Vortónleikar í Tónlistarskóla Ísafjarðar í kvöld

Vortónleikaröð Tónlistarskóla Ísafjarðar hefst miðvikudagskvöldið 8. maí með hinum árlega VORÞYT, en þá blása lúðrasveitir tónlistarskólans vorið í bæinn. Tónleikarnir verða haldnir í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar og hefjast kl. 20.00. Á tónleikunum koma fram tvær lúðrasveitir: Skólalúðrasveit T.Í. sem skipuð er nemendum skólans og Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar sem er skipuð blásurum á ýmsum aldri. Dagskráin á tónleikunum er mjög fjölbreytt og munu hljóma lög eftir Rolling Stones, Blondie, Whitney Houston, Asia, Boney M o.fl. Það er hinn kraftmikli eistlendingur Madis Mäekalle sem hefur undirbúið þessa tónleika og stjórnar sveitunum og hefur einnig útsett og aðlagað flest lögin.

Lúðrasveitirnar skipa mikilvægan sess í starfi Tónlistarskólans og taka virkan þátt í atburðum og uppákomum í Ísafjarðarbæ. Undanfarnar vikur hafa sveitirnar komið víða við og m.a. leikið við opnun Skíðavikunnar, á árshátíð Ísafjarðarbæjar og verið í broddi fylkingar þann 1. maí.

Tónleikarnir verða sem áður sagði í Hömrum og hefjast kl. 20:00. Aðgangseyrir að tónleikunum er 1.000 kr. en ókeypis fyrir börn á grunnskólaaldri.

DEILA