Vill banna svartolíu innan landhelginnar

Umhverfis- og auðlindaráðherra hyggst banna notkun svartolíu innan íslenskrar landhelgi. Frestur til að skila umsögnum um drög að reglugerðarbreytingu þar að lútandi er til 7. júní n.k.

Fyrirhugað bann er m.a. liður í að framfylgja aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, sem og stjórnarsáttmála segir í tilkynningu frá Umhverfisráðuneytinu.

Auk tilætlaðs ávinnings fyrir loftslagið er breytingunni ætlað að stuðla að betri loftgæðum við strendur Íslands og hvetja til notkunar á loftslagsvænni orkugjöfum á skipum. „Svartolía“ er samheiti yfir þungar og seigar olíur sem eru með ákveðna eiginleika og geta innihaldið hátt hlutfall brennisteins. Svartolía er m.a. notuð í skipasiglingum og mengar meira en annað eldsneyti. Þegar hún brennur losnar mikið af sóti úti í andrúmsloftið.

Fyrirhugaðar breytingar taka til reglugerðar nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti. Leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er innan landhelgi Íslands og innsævis verður lækkað úr 3,5% niður í 0,1% þann 1. janúar 2020. Sama dag taka einnig þær breytingar gildi að innan mengunarlögsögunnar en utan landhelginnar mun leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti lækka niður í 0,5%. Það er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt viðauka VI í MARPOL-samningnum sem Ísland fullgilti í febrúar 2018.

Þessar breytingar útiloka í raun brennslu svartolíu, þar sem hún hefur í langflestum tilvikum hærra brennisteinsinnihald en þetta.

DEILA