Vestri: Fundur um meistaraflokk kvenna

Stór hópur stúlkna á aldrinum 15-17 ára æfa körfubolta með Vestra. Þessi glæsilegi hópur er grunnur sem deildinn hyggst byggja á til að setja á fót meistaraflokk kvenna á ný.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra ásamt barna- og unglingaráði deildarinnar boða til fundar um meistaraflokk kvenna. Fundurinn fer fram í félagsheimili Vestra (Vallarhúsinu), fimmtudaginn 16. maí kl. 18:00. Það er sérstaklega mikilvægt að allir þeir sem áhuga hafa á verkefninu mæti til fundarins og á það bæði við um iðkendur og foreldra en ekki síður aðra áhugasama um verkefnið. Við hvetjum því alla sem hafa áhuga á framgangi kvennakörfunnar á Vestfjörðum að fjölmenna á fundinn.

Undanfarin ár hafa stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra og barna- og unglingaráð deildarinnar unnið markvisst að þvi að félagið tefli fram meistaraflokki kvenna á nýjan leik en síðast var hann starfræktur veturinn 2014-2015. Haustið 2016 voru lagðar línur um áætlun til að þetta markmið næði fram að ganga. Haustið 2017 var framtíðarsýn stjórnar kynnt fyrir iðkendum og foreldrum á fjölmennum fundi í Menntaskólanum á Ísafirði. Þar var stefnan sett á að tefla fram meistaraflokki kvenna eigi síðar en haustið 2020 en fyrr ef aðstæður byðu upp á.

Nú boðar stjórn til fundar um málið þar sem ákvörðun verður tekin um hvort lið verður skráð til leiks næskomandi haust eða beðið til haustsins 2020.

Ljóst er að þetta verkefni krefst samhents átaks úr röðum félagsins og því mikilvægt að allir sem áhuga hafa á verkefninu mæti.

Áfram Vestri!

DEILA