Fyrsta vísnahornið í sumri er að öllu leyti skemmtilegt og efnismikið vísnabréf frá Indriða á Skjaldfönn og gefum honum orðið:
Laugardaginn 13. apríl síðastliðinn fórum við 30 Strandabændur í skemmti- og skoðunarferð suður í Borgarfjörð. Frarastjóri var Viðar Guðmundsson, bóndi og tónlistarmaður í Miðhúsum í Kollafirði, borinn og barnfæddur Borgfirðingur, og fór á kostum í að fræða okkur oft á sprenghlægilegan máta um byggðirnar og fólkið.
Meðal annars var komið að Hrísum til Dagbjarts og Þórdísar, sem bæði eru afburða hagyrðingar og Dagbjartur einstakur fróðleiksmaður um vísur og kveðskap allan.
Stefndu að Hrísum Strandamenn.
Stuð á mörgum halnum.
Bærinn var og er svo enn
innst í Flókadalinn.
Á búskap þar er besta lag,
bilar ekki gjörðin,
og eigendunum öll í hag
ánægð sauðahjörðin.
Ýmsir vildu yrkja ljóð
og þeim gengu að vísum,
dýrgripanna drjúgum sjóð
Dagbjarti í Hrísum.
Giftist Bjartur geysivel.
Greinist enginn hallinn.
Og það jafnvel öruggt tel
að hún bæti kallinn.
Þó Bjartur ötull yrki ljóð
ólmur vill því lýsa
að skáldaaugu afbragðsgóð
einnig hefur Dísa.
Svo ekki verði yrking flöt
alveg má þess getið
að betra heima hangikjöt
hef ég ekki etið.
Bjart er enn í bændastétt
Borgarfjarðardala.
Yrkja, syngja, leika létt.
Láta verkin tala.
Svo fóru farfuglar að streyma að fyrr en vant er, t.d. Máríuerlan 20. apríl.
Máríuerlan mætti í kvöld,
mikið var ég fengin.
Hefur ratað, öld af öld,
óralangan veginn.
Svo skall á mögnuð blíðutíð.
Þrastasöngur kliðarkær.
Hvergi snjór svo heiti.
Á vanga andar vestan blær.
Vor á næsta leiti.
Og þar var ekkert ofsagt.
Við óþægindin ég ók á svig
og enginn leiði mig gisti
enda var sólskin sautján stig
og sumardagurinn fyrsti.
Tuttugasta og fjórða apríl klukkan tvö eftir miðnættið kom svo hrossagaukurinn
Uppi gaukur leikur létt.
Lætur hneggið gjalla.
Hefur víst af vori frétt
vill því gleðja alla.
Um páskana hringdi bráðskarpur góðkunningi minn og vildi meina að Vigur og Borgarey hérna á Djúpinu væru kjörnar fyrir vindmyllugarða. Þar væri jafnviðri en ekki vindstrengir eða hnútar frá fjöllum, stutt væri með orkuna með sæstreng til Ísafjarðarsvæðisins og lundi og æðarfugl svo lágfleygur að spaðarnir ættu ekki að valda teljandi tjóni á þeim fuglum. Svo segði nú kornmyllan, einkennistákn Vigur, sitt um heppilegan vindbúskap þar. Svo er vindmylluundirbúningur í Garpsdal kominn á fullt.
Undirstaða ef er traust
og menn beita lagni
vindorkan mun vafalaust
verða oss að gagni.
Ekki má láta alveg ógetið þriðja orkupakkans sem mikill meirihluti þjóðarinnar virðist vera andvígur.
Við orkupakkann ég ekki kann
þó fákænir glæpist.
Ef andskotinn sjálfur æti hann
er ég viss um að hann dræpist.
Forsætisráðherra hrósaði á dögunum okkar góðu vinarþjóð, Bretum. Á það vinarþel hefði aldrei fallið skuggi. Landhelgisdeilur, hryðjuverkaflokkun og Icesave virðist Katrínu gleynt og grafið.
Kata litla elskar allt
á Englands slóð.
Frá þeim aldrei andar kalt
á okkar þjóð.
Lýkur hér bréfi Indriða en skilja má eftir þá spurningu til lesenda og kannski Indriða hvort síðasta vísan sé öfugmælavísa eða ekki.
Með sumarkveðjum
kristinn H. Gunnarsson